Margt bendir til þess að kvótakerfið hafi leitt il 20-50% meiri nettó gjaldeyrisöflunar í sjávarútvegi en var áður en það var sett á, að því er Ragnar Árnason hagfræðiprófessor segir í viðtali í Tímariti Fiskifrétta, sem kom út fyrir helgina.
,,Ég tel sennilegt að talan sé nær 50% en 25%. Þetta má sjá á mikilli hækkun útflutningsverðmætis og um leið lækkun á innflutningi vegna sjávarútvegsins, til dæmis í formi skipa, eldsneytis, tækja og annars búnaðar.
Sjávarútvegurinn leggur til um 40% af heildargjaldeyristekjum þjóðarinnar. Það að kvótinn hafi verið settur á þýðir því 10-20% meiri hreinar gjaldeyristekjur þjóðarinnar en fyrir setningu hans. Varlega má áætla að gengi krónunnar sé 10-20% hærra nú af þessum sökum en ella hefði verið," segir Ragnar.
Og hann bætir við: ,,Þetta þýðir almenna kjarabót fyrir landsmenn upp á nálægt helming af þessari gengisstyrkingu og auðvitað samsvarandi tekjuminnkun fyrir sjávarútveginn."
Sjá nánar viðtal við Ragnar Árnason í Tímariti Fiskifrétta undir fyrirsögninni: Hvernig gagnast auðlindin öllum almenningi?