Helgi Laxdal lét af formennsku í Vélstjórafélagi Íslands á árinu  2007 eftir aldarfjórðung í embættinu. Hann fylgist enn með gangi mála og var inntur álits á þróuninni í samskiptum sjómanna og útgerðarmanna.

„Mér sýnist nú harkan heldur hafa aukist ef eitthvað er,“ segir Helgi. „Nú felldu sjómenn samningana síðast og ég sé ekki að það séu einu sinni reynt að ná saman. Þar á undan fóru sjómenn í verkfall og voru með flotann stopp í tvo mánuði og fengu nánast ekkert ekkert út úr því.“

Helgi telur forystu sjómannasamtakanna ekki myndu fá verkfallsheimild frá félagsmönnum sínum í dag. „Þú getur ekki verið með fólk í verkfalli í tvo mánuði og það fær ekkert. Þá færðu enga heimild á næstunni að minnsta kosti, ég hef enga trú á því,“ segir hann.

Ekkert að gerast

„Ég heyri ekki að það sé nokkur skapaður hlutur að gerast í þessu,“ heldur Helgi áfram.  Orsök þeirrar þróunar sem lesa má úr þessu er kvótakerfið að hans sögn.

„Þú getur ekki verið með fólk í verkfalli í tvo mánuði og það fær ekkert.“
„Þú getur ekki verið með fólk í verkfalli í tvo mánuði og það fær ekkert.“
© Eyþór Árnason (Eyþór Árnason)

„Þú getur geymt aflann. Þótt þú getir ekki fiskað í tvo mánuði þá nærðu því alltaf innan ársins. Þú getur jafnvel flutt á milli ára þannig að pressan er orðin svo lítil á útgerðina,“ lýsir Helgi sviðsmyndinni.

„Þannig að þú verður að finna einhverja aðra aðferð ef þú ætlar að nýta þér verkfallsréttinn. Það gengur alla vega ekki að gera þetta svona. Því útgerðin missir engar tekjur á ársgrundvelli, þú þarft þá að vera í verkfalli í fjóra, fimm mánuði,“ segir Helgi.

Ekki skárri í dag

„Þeir eru alla vega ekkert skárri sko,“ svarar Helgi spurður hvort útgerðarmenn í dag séu þá á einhvern hátt óbilgjarnari gagnvart því að koma til móts við sjómenn heldur en var áður.

„Menn töldu nú að Kristján Ragnarsson [fyrrverandi formaður LÍÚ] hefði verið alómögulegur en ég er því alls ekki sammála. Mér gekk alltaf vel að tala við Kristján. Mér sýnist þessi forysta í dag vera ennþá þverari en menn voru á þeim árum,“ segir Helgi sem tekur þó fram að hann sjá málin aðeins úr fjarska.

Skipti um aðferðafræði

Spurður um leið fyrir sjómenn vilji þeir fá einhverju framgengt segist Helgin í raun ekki sjá hana. Menn þurfi að skipta um aðferð.

„Þá verða menn að fara að boða verkfall á hluta af flotanum. Einhvern þann hluta sem skiptir máli. Og lifað við það að geta verið í fjóra, fimm mánuði í verkfalli og borgað köllunum kaup svo þeir haldi það út. Þú færð ekki menn til að vera launalausir í fjóra, fimm mánuði. Og ef þú ert til þess að gera með fá skip en þau þurfa þá að vera frá útgerðum sem skipta máli,“ segir Helgi sem kveður málið ekki einfalt.

Sjómenn hafa það gott

„Ég held að vandinn sé líka sá að sjómenn hafa það gott því eftir að kvótakerfið kom þá er aflinn miklu öruggari. Þá fá öll skip veiði. Það er miklu meira af fiski í sjónum og það er miklu styttra að fara að sækja hann. Verðið á sjávarafurðum er náttúrlega svakalega gott þegar þorskurinn er kominn yfir fimm hundruð krónur kílóið,“ segir Helgi. Þetta sé beintengt við afkomu sjómanna.

„Við veiddum alltaf miklu meira heldur en fiskifræðingar lögðu til. Þetta var bara í helvítis rugli og veseni.“
„Við veiddum alltaf miklu meira heldur en fiskifræðingar lögðu til. Þetta var bara í helvítis rugli og veseni.“
© Eyþór Árnason (Eyþór Árnason)

„Eftir því sem þú hefur það betra þá náttúrlega nennirðu ekki að fara í einhver verkföll út af einhverju skiteríi,“ bendir gamli formaðurinn á. Kvótakerfið hefur þannig algerlega breytt allri aðstöðu og allri aðferðafræði.

„Það gerir það ekki bara að þessu leytinu heldur líka vegna þess að aflamöguleikarnir hafa aukist svo mikið. Það er miklu skemmra að róa virðist vera og það eru miklu meiri rólegheit yfir þessu því að í dag erum við ekki að veiða fram yfir aflaheimildir,“ segir Helgi.

Áður var allt í rugli

Annað sem hafi breyst er að nú rífist menn ekki lengur þótt skipt sé um skip. „Ef þú þarft að kaupa skip þá bara kaupir útgerðarmaðurinn það sem passar. Það þarf ekki að falla inn í eitthvert kerfi eins og var,“ segir Helgi. Þannig sé það geysilega mikið sem hafi unnist með kvótakerfinu, jafnvel þótt einhverjir séu óánægðir.

„Menn voru með að minnsta kosti eina gengisfellingu á ári hér áður fyrr. Það var allt í rugli. Við veiddum alltaf miklu meira heldur en fiskifræðingar lögðu til. Þetta var bara í helvítis rugli og veseni. Þannig að þetta er allt annað líf að mínu viti,“ segir Helgi Laxdal.

Stakk upp á verkfalli á öll rauð skip

Fjallað var um kjaramál á Vélstjóraþingi í nóvember 1997. Rætt var við Helga Laxdal í Fiskifréttum þann 14. nóvember það ár um boðun verkfalls og fleira. Þetta er rifjað upp í Gömlu fréttinni í nýjasta tölublaði Fiskifrétta.

Rætt var við Helga Laxdal í Fiskifréttum 14. nóvember 1997.
Rætt var við Helga Laxdal í Fiskifréttum 14. nóvember 1997.

Helgi Laxdal segir við Fiskifréttir í dag að orðið hafi af verkfallinu sem sagt var frá í nóvember 1997 að væri yfirvofandi. Boðað hafi verið verkfall á öll skip með stærri aðalvél heldur en 1.500 kílóvött. Því fyrirkomulagi hafi Kristján Ragnarsson, þáverandi formaður Landsambands íslenskra útvegsmanna, hent gaman að.

„Þá segir Kristján vinur minn við mig: Heyrðu, af hverju boðar þú ekki verkfall á öll rauð skip? Þessi hlutaskipti eru búin að vera svona lengur en elstu menn muna og þú breytir þeim nú ekkert drengurinn minn! Það tókst nú samt,“ rifjar Helgi upp.

Fengist hafi í gegn að skiptahlutur vélstjóra yrði 1,65 í stað 1,50 áður. Í byrjun  var farið fram á að hluturinn yrði 1,75 eins og kemur fram í fréttinni frá því í nóvember 1997.