Ríkisstjórnin fjallaði um nýtt fiskveiðilagafrumvarp á fundi sínum fyrir helgina og mun ræða málið áfram í þessari viku en síðan verður það kynnt þingflokkunum.
Samkvæmt heimildum Fiskifrétta er gert ráð fyrir að einhver ákvæði þess, til dæmis um takmörkun á framsalsrétti og hækkun veiðileyfagjalds, taki gildi þegar nýtt fiskveiðiár byrjar 1. september, en stefnt er að því að afgreiða málið í heild á haustþingi eftir ítarlega umfjöllun og því komi aðrar breytingar ekki til framkvæmda fyrr en 1. september 2012.
Samkvæmt heimildum Fiskifrétta gerir frumvarpið ráð fyrir því að gerðir verði nýtingarsamningar við útgerðir til 15 ára og þegar líður á samningstímann, til dæmis á miðju samningstímabilinu, geti útgerðirnar óskað eftir framlengingu á samningnum.
Reiknað er með að á fyrsta 15 ára tímabilinu aukist sá hlutur sem fer í byggðatengdar úthlutanir (byggðakvóta, línuívilnun, strandveiðar, o.fl.) úr 8-9% af heildarafla þorsks eins og hann er nú í 15% í áföngum á tímabilinu. Gert er ráð fyrir að í byggðapottana fari sömu tegundirnar og hingað til (þorskur, ýsa, ufsi og steinbítur) en enginn ,,tollur” verði tekinn af t.d. uppsjávartegundum. Ekki er gert ráð fyrir að ríkið leigi sjálft út kvóta eins og gerðist með skötuselskvótann í fyrra.
Samkvæmt heimildum Fiskifrétta gerir frumvarpið ráð fyrir að leiguframsal verði takmarkað meira en nú er og miðist við ákveðið hlutfall af því sem viðkomandi veiðir sjálfur af kvóta sínum. Þá verða einnig reglur hertar um veðsetningu varanlegra aflaheimilda.