„Það er engin matvara ódýr í dag. Það er kannski tíu prósenta hækkun á síðasta ári á fiski,“ segir Geir Már Vilhjálmsson, eigandi fiskbúðarinnar Hafbergs í Gnoðarvogi í Reykjavík.

Hækkanir á verði segir Geir Már að megi rekja til hærri innkaupsverðs og aukins launa- og rekstrarkostnaðar. „Þetta spilar allt saman þegar allt annað hækkar líka,“ bendir hann á.

Í Noregi greina þarlendir miðlar frá því að neysla á fiski hafi dregist saman um fimmtán prósent frá árinu 2015, þveröfugt við markmið stjórnvalda um tuttugu prósenta aukningu. Vilja sumir þar að virðisaukaskattur verði afnuminn eða að minnsta kosti lækkaður á fiski í nafni hollustu og lýðheilsu. Um þetta má meðal annars lesa í nýlegum leiðara í Fiskeribladet.

Fiskeribladet 22. ágúst síðastliðinn.
Fiskeribladet 22. ágúst síðastliðinn.

Aðspurður segist Geir Már ekki telja að Íslendingar almennt borði minni fisk en áður.

„Við erum að halda í stærsta hlutann af kúnnunum. Fólk er meðvitað um að fiskur er góður og hollur og þetta er ekkert okurverð,“ segir Geir Már sem kveður sína viðskiptavini þó virðast hafa breytt innkaupamynstri sínu.

Dregið úr framboðinu

„Vegna þess að það hefur allt hækkað hugsar fólk meira um að kaupa bara það sem það þarf. Það er ekki að kaupa sjö hundruð grömm fyrir tvo þegar það þarf bara fimm hundruð,“ segir fisksalinn. Þarna spili einnig inn í aukin meðvitund um matarsóun og fólki kaupi nú einfaldlega rétt í matinn.

Að sögn Geirs Más hefur dregið úr framboði á fiskmörkuðum og það þrýsti verðinu upp. „Þeir sem eiga kvótann setja ekki fiskinn sinn á markað. Þeir flytja hann út sjálfir. Einu sinni veiddu þeir bara fiskinn og hann fór allur á markað. Í dag eru flestallar stærri útgerðir, hvar sem þær eru á landinu, komnar með sínar eigin vinnslur. Og fiskurinn fer í þeirra vinnslur og á þeirra verði,“ lýsir Geir Már stöðunni í dag.

„Þetta gerir að verkum að framboð á mörkuðum verður minna og fiskverðið hækkar á mörkuðunum.“