Jón Kjartansson SU-111 kom til Eskifjarðar í fyrrinótt með 2.050 tonn af kolmunna eftir langa siglingu frá veiðislóð suður af Færeyjum.

„Þetta var svona kropp bara. Það var togað lengi og gott veður og það var það sem skilaði túr,“ segir Grétar Rögnvarsson skipstjóri, sem var reyndar í fríi þennan túr en fylgdist með. „Síðan tók langan tíma að komast til baka, það var vont veður á leiðinni heim.“

Grétar Rögnvarsson, skipstjóri á Jóni Kjartanssyni.
Grétar Rögnvarsson, skipstjóri á Jóni Kjartanssyni.

Að sögn Grétars á  Eskja yfir 56 þúsund tonna kvóta í kolmunna. Af honum sé búið að veiða um hálft sjötta þúsund tonn. Aðalsteinn SU 11 hafi landað um tvö þúsund tonnum og Guðrún Þorkels SU 211 um 1.500 tonnum.

Spurningin um loðnukvótann

Framhaldið ræðst nú að sögn Grétars helst af veðrinu.

„Það er líka hægt að veiða kolmunnann aftur í vor og svo í haust. Svo er spurning hvort gefin verður út loðna.“

Loðnuleitarleiðangur Hafrannsóknastofnunar hófst í gær. Þá létu rannsóknaskipin Árni Friðriksson og Bjarni Sæmundsson ásamt togaranum Polar Ammassak úr höfn í Hafnarfirði. Togarinn Ásgrímur Halldórsson slæst síðan í hópinn frá Hornafirði.

Nóg af hrognum frá í fyrra

„Það sem hefur gerst er að það hefur ekki fundist nóg til að gefa út kvóta en miðað við það sem maður er að heyra þá eru menn að sjá loðnu víða. Við erum því ekkert búnir að gefa upp vonina,“ segir Grétar. Fáist kvóti hefjist veiði þegar loðnan sé frystingarhæf eða hrognatæk.

„Ég veit ekki hvort menn ætla að heilfrysta eða taka í hrogn. Ég held að það sé til nóg af hrognum frá í fyrra, það var svo mikið veitt þá,“ sergir Grétar Rögnvarsson.