Sjávarútvegsráðherra hefur ákveðið að heimila færaveiðar á makríl til 20. september fyrir þá sem hafa leyfi Fiskistofu til makrílveiða með handfærum. Heimildin er veitt þrátt fyrir að hámarksafla verði náð, en í handfærapottinum eru 3.200 tonn.

Nú er búið að veiða 3.185 tonn af makríl á handfæri en um 85 bátar hafa stundað þessar veiðar. Efstu bátar eru Særif SH með 131 tonn og Brynja SH með 129 tonn. Sjö bátar hafa veitt meira en 100 tonn.

Landssamband smábátaeigenda hefur beitt sér fyrir áframhaldandi veiðum færabáta. „Veiðar undanfarna daga hafa gengið vel og ört gengið á 3.200 tonna veiðiheimildir sem smábátum eru ætlaðar. Af þeim ástæðum fór LS fram á að ráðherra tryggði að nægar veiðiheimildir yrðu til færaveiða smábáta út vertíðina. Ráðherra hefur nú orðið við því og geta bátarnir því glímt við makrílinn meðan veiði er von,“ segir á vef LS um þetta mál.