Skip í aflamarki annars vegar og bátar í krókaaflamarki hins vegar höfðu veitt mismikið af kvóta sínum þegar fiskveiðiárið var hálfnað. Aflamarksskipin höfðu til dæmis veitt tæp 54% af ýsukvóta sínum en krókaaflamarksbátarnir höfðu veitt um 82% síns ýsukvóta. Þessar upplýsingar koma fram á vef Fiskistofu.
Á fyrra helmingi fiskveiðiársins 2012/2013 nýttu aflamarksskip um 60% af aflaheimildum sínum í þorski (er þá tekið tillit til flutnings heimilda frá fyrra fiskveiðiári, sérstakra úthlutana auk almennrar úthlutunar á grundvelli aflahlutdeildar). Þetta er hlutfallslega svipuð aflamarksstaða og var um mitt fyrra fiskveiðiár. Þorskafli aflamarksskipa til kvóta á fyrra helmingi yfirstandandi fiskveiðiárs nam rúmum 80 þúsund tonnum samanborð við 68 þúsund tonn á fyrra ári. Ónýtt aflamark aflamarksskipa í þorski nemur 52 þúsund tonnum samanborið við 46 þúsund tonn á sama tíma í fyrra.
Þegar litið er til aflamarks í ýsu við lok fyrra helmings fiskveiðiársins er staða aflamarksskipa hlutfallslega betri en í þorskinum, rúm 46% kvótans er óveiddur. Á móti kemur að leyfilegur heildarafli hefur farið minnkandi undanfarin ár. Óveitt aflamark eftir fyrri helming fiskveiðiársins er tæp 11,3 þúsund tonn samanborið við 14 þúsund tonn á sama tíma í fyrra.
Aflamarksskip höfðu í lok febrúar nýtt 57,1% af aflaheimildum sínum reiknað í þorskígildum það sem af var fiskveiðiárinu samanborið við 58,5% á sama tíma í fyrra.
Krókaaflamarksbátar höfðu nýtt 50,7% af heildaraflaheimildum sínum á fyrra helmingi fiskveiðiársins reiknað í þorskígildum samanborið við 53% á fyrra helmingi fyrra fiskveiðiárs. Sé litið til þorskaflans hjá þeim þá var hann kominn í 15 þúsund tonn í lok febrúar sem er 14,4% aukning frá sama tíma á fyrra ári.
Afli krókaaflamarksbáta í ýsu er nú rúmum 1.800 tonnum minni en á síðasta fiskveiðiári og þó er aflamarksstaðan um 430 tonnum þrengri en á sama tíma í fyrra. Þeir hafa þegar nýtt rúmlega um 82% leyfilegs heildarafla í ýsu og eftir standa fyrir seinni helming fiskveiðiársins heimildir upp á 1.230 tonn.