Það sem af er fiskveiðiárinu hafa krókaaflamarksbátar veitt 9.569 tonn af ýsu, sem jafngildir 25,7% af heildaraflanum, að því er fram kemur á vef Landssambands smábátaeigenda.
Alls hafa útgerðir bátanna leigt til sín 2.169 tonn af ýsu úr aflamarkskerfinu það sem af er fiskveiðiárinu sem er svipað hlutfall og udanfarin sex fiskveiðiár.
Í greinargerð Daða Más Kristófersson, dósents við Háskóla Íslands, og Stefáns B. Gunnlaugssonar, lektors við Háskólann á Akureyri, sem atvinnuveganefnd fól að skoða frumvarpið, er sérstaklega fjallað um það atriði frumvarpsins að loka fyrir þennan möguleika. Álit þeirra styður mjög við þennan þátt umsagnar LS þar sem því er harðlega mótmælt að banna framsal frá aflamarksbátum til krókaaflamarksbáta, segir ennfremur á vef LS.
Sá kafli sem LS vitnar til í greinargerðinni hljóðar svona: „Annað sem vert er að taka fram er að í frumvarpinu um stjórn fiskveiða er bannað að flytja aflahlutdeild og aflamark á milli kerfa. Þetta mun hafa mikil áfrif á mörg fyrirtæki í krókaaflamarkskerfinu. Þau hafa mörg leigt til sín aflamark, sérstaklega ýsu, frá fyrirtækjum úr „stóra kerfinu“. Sá möguleiki mun lokast og hafa neikvæð áhrif á afkomu þessa veika útgerðarflokks.“