Kolbrún Sveinsdóttir, sérfræðingur hjá Matís, sagði á málþingi Matís í síðustu vikur að dregið hafi úr neyslu á Íslendinga á fiski. Þetta sé áhyggjuefni.

Í frétt frá Matís er sagt vera sérstakt áhyggjuefni að innan við eitt prósent kvenna á barneignaaldri fari eftir ráðleggingu Landlæknis um að borða fisk að minnsta kosti tvisvar til þrisvar í viku. Fiskurinn sé góður próteingjafi og innihaldi önnur mikilvæg næringarefni á borð bið selen og joð.

„Feitur fiskur er svo sérstaklega auðugur af D vítamínum og löngum omega-3 fitusýrum. Þessa næringarblöndu er einmitt að finna í fáum öðrum matvælum en sjávarfangi,“ segir Matís.

Áhrif á taugakerfi og framleiðslu skjaldkirtilshormóna

Almenn fiskneysla er sögð heldur lág meðal Íslendinga og vera töluvert lægri hjá konum en körlum. „Þannig fylgja 44 prósent karla ráðleggingum landlæknis varðandi fiskneyslu, en einungis 34 prósent kvenna,“ segir Matís.

„Þá er þetta sérstaklega mikið áhyggjuefni þegar horft til ungra kvenna á barneignaraldri, en innan við 1% kvenna á aldrinum 18-39 ára fylgir þessum ráðleggingum. Steinefnið Joð hefur mikil áhrif á starfsemi taugakerfis og framleiðslu skjaldkirtilshormóna en þegar kemur að konum á barneignaaldri er joð nauðsynlegt fyrir eðlilegan vöxt og þroska fósturs,“ er bent á í frétt Matís.

Velja frekar kjöt til að gera vel við sig

Kemur fram að Kolbrún hafi í erindu sínu velt fyrir sér ástæðunni fyrir þessari minnkandi fiskneyslu og skoðað nokkra þætti, þá sérstaklega framsetningu, upplifun neytenda, viðhorf og venjur.

„Hún bendir jafnframt á að Íslendingar borða að jafnaði þrefalt meira kjötmeti en fiskmeti og yfirleitt verða kjötréttir fyrir valinu þegar fólk vill gera sérstaklega vel við sig. Þá veltir hún líka fyrir sér af hverju fiskurinn sé ekki markaðssettur meira sem hollustuvara þegar slíkar auglýsingar eru afar áberandi í samfélaginu. Það er alla vega ljóst að minnkandi fiskneysla, og þá sérstaklega á meðal ungra kvenna, er áhyggjuefni sem þyrfti að kanna mun betur,“ segir Matís.

Frekari upplýsingar, upptökur og myndir frá málþingi Matís má finna hér. Hvað verður í matinn? Málþing Matís um framtíð matvælaframleiðslu