Líftæknifyrirtækið Norður ehf. á sér langa sögu við þróun bragðefna úr sjávarfangi með þorskensímum, eða allt aftur til ársins 1996 þegar Bergur Benediktsson verkfræðingur, Jón Bragi Bjarnason prófessor í líftækni við Háskóla Íslands og  Þorsteinn I Sigfússon prófessor, síðar forstjóri Nýsköpunarmiðstövar Íslands stofnuðu félagið ásamt samstarfsfólki sínu.

Jón Bragi var frumkvöðull að rannsóknum á próteinkljúfandi ensímum úr þorski, þar á meðal tripsín. Eftir þriggja ára starf þótti rétt að skipta upp starfsemi félagsins og var Ensímtækni, sem nú heitir Zymetech, og framleiðir bæði húðáburðinn Penzím og nefúðann PreCold skilin frá strafsemi Norðurs og stýrði Jón hinu nýja fyrirtæki.

Bergur hefur hins vegar haldið áfram að þróa vinnslu á prótínum úr sjávarfangi með þorskensímum, nú í samstarfi við son sinn Þórð og dóttur sína Signýju.

Stóra líftækniverkefnið

Bergur segir að sögu félagsins megi raunar rekja allt aftur til ársins 1985 þegar hleypt var af stokkunum verkefni á vegum Rannís, sem þá hét.

„Þetta var alltaf kallað stóra líftækniverkefnið,“ segir Bergur. Hann var þá að vinna hjá Rannsóknarstofnun fiskiðnaðarins, en fleiri stofnanir og vísindamenn komu að þessu, þar á meðal Iðntæknistofnun og nokkrar deildir í Háskóla Íslands.

„Einn hluti af þessu líftækniverkefni var að skala upp vinnslu á ensímum úr þorski, og það tókst. Annar þáttur var svo að finna not fyrir þessi ensím, og þá var horft svolítið til sjávarútvegsins með að nýta það á einhvern hátt. Það gekk upp og ofan og ýmislegt prófað, sumt gekk og annað ekki. En þegar þessu verkefni lauk um 1990 þá var farið að huga betur að því hvernig við myndum nýta þessa þekkingu sem var komin með þessi ensím.“

Bergur rekur áfram söguna í stórum dráttum. Fljótlega eftir að Norður ehf. var stofnað fór fyrirtækið í samstarf við breskt fyrirtæki um að vinna ensím úr ljósátu í Suðurhöfum.

„Við tókum þátt í því og margbættum vinnsluaðferð á ensímunum. Meðal annars var prófað í tilraunaglasi hvernig áhrif þessi ensím höfðu á vírusa, og þá sýndi sig að þorskatripsínið stóð sig betur heldur en krillensímið.“

Bragð og bein

Um aldamótin fór Bergur svo að prófa að brjóta niður prótein með ensímum.

„Ég var aðallega að vinna með rækjuskel og prófa að ná próteininu af hryggjum og beinum, og það gekk ágætlega..“

Með þessari aðferð, hýdrólýseringu eða vatnsrofi, fékkst afurð sem síðan var framleidd sem bragðefni. Úr beinunum var síðan gert beinamjöl.

„Síðan fór það svo að Jón Bragi áfram með tripsínið og hannaði penzím. Zymetech er svo kapítuli út af fyrir sig og mjög jákvæða þróun hefur orðið þar, en þetta voru bara það ólíkar afurðir að við ákváðum að skipta upp félaginu.“

Bergur hélt því áfram með Norður og upp úr þessu var stofnað félag sem kallað var Norðurís og var staðsett á Höfn í Hornafirði.

„Það tók við keflinu að framleiða þessi bragðefni. Síðan var nafninu breytt í Norðurbragð. Það var starfandi alveg í tólf ár, og framleiddi bragðefni og seldi til Bandaríkjanna aðallega. Notað aðallega í súpur og sósur og allt sem menn vildu nota í.“

Humarvinnsla í Kanada

Um og upp úr hruni komst Bergur í samband við Kanadamenn og ætlunin var að framleiða humarkraft, en ekki gekk það sem skyldi.

„Bandaríkjamenn kalla ekki íslenska humarinn humar, þannig að þeir vildu hann ekki, þannig að þetta félag varð að flytja skel frá Kanada af amerískum humri og vinna humarinn hér. Síðan fluttum við afurðina út til Bandaríkjanna. Flutningskostnaðurinn var því orðinn ansi mikill, svo það var ákveðið að skoða hvort við fyndum aðila í Kanada að vinna með og það var gert á árunum 2009 til 2011. Við settum upp verksmiðju þar, en þegar á reyndi þá súrnaði samstarfið og við drógum okkur þar út. Þessi vinnsla var þá eiginlega komin yfir til þeirra.“

Þórður segir þetta hafa endað í málaferlum. „Þeir vildu ná af okkur tækninni en við héldum eftir ensímþættinum. Þeir gátu ekki komist yfir hann. Hins vegar þá misstum við alla kúnna og nafnið og eitt og annað sem við höfðum ekki færi á að fá til baka, enda málarekstur þarna úti ansi dýr.“

Ekkert að vanbúnaði

Þar með lagðist vinnslan af hérlendis að mestu, en unnið er að því að koma henni aftur í gang.

„Við erum með vinnsluleyfi og höfum verið að þróa nýjar afurðir, þannig að við getum startað þessu á morgun, þess vegna,“ segir Bergur.

„Notkun ensíma til þess að vinna aukaafurðir úr fiski hefur verið að aukast alls staðar í heiminum, þannig að styrkleiki okkar liggur kannski ekki í því að framleiða heldur að veita tæknilausnir,“ segir Þórður. „Við ættum þá að geta gert þetta á einhverjum skala sem er stærri en varð nokkurn tímann hjá Norðurbragði. Það yrði kannski aldrei nákvæmlega sama vinnslan, heldur færum við meira í prótínvinnslu.“

Í startholunum á ný

„Við höfum aðallega verið að fókúsera á fitusnautt eða magurt efni, eins og rækju eða bolfisk, en nú viljum við þróa tæknina áfram þannig að við vinnum afurðina úr feitfiski, eins og lax og síld,“ segir Þórður um verkefni sem nú er í startholunum á vegum North Seafood Solutions ehf, sem er dótturfélag Norðurs, en það verkefni hefur fengið styrk frá  Tækniþróunarsjóði. Hugmyndin þar er að nýta betur hráefni sem mest hefur kannski farið í bræðslu til þessa.

„Með nýrri tækni getum við fengið betri afurðir sem væru hæfar til manneldis. Það verður hægt að vinna kannski miklu verðmætari vöru úr beinamjölinu, taka próteinbúta og sía það frá, fara með það í fæðubótarefni eða sérfóður eða hvað sem er, og síðan er það lýsið. Það sem við erum að athuga hvort hægt sé að vinna þetta þannig að hitameðhöndlun sé í lágmarki.“

  • Bergur Benediktsson gerir athuganir á humarhausum frá Maine. MYND/Þórður Bergsson

Sérstaðan við þá aðferð sem Norður ræður yfir er fólgin í því að þorsk-ensímin eru það sem kallað er kuldavirk.

„Þau vinna við tiltölulega lágt hitastig, og almennt lægra hitastig heldur en þau ensím sem eru fáanleg á markaði í dag,“ útskýrir Bergur. „Þannig að bæði getur það verið orkusparandi og líka getur það farið betur með hráefnið.“

Tækni frekar en vinnsla

Þeir feðgar sjá ekki fyrir sér að fyrirtækið fari sjálft út í mikla vinnslu, heldur sjái frekar um að þróa tæknina og búnaðinn handa vinnslunni.

„Okkar sýn er sú að þessi vinnsla geti verið samhliða fiskvinnslu,“ segir Þórður. „Þú ert að fá ferskt hráefni inn og það er allt unnið þar. Síðan geta aðrir verið að kaupa þessi prótein og búið til fæðubótarefni, það er ekki þar sem okkar sýn er, heldur erum við tækniveitandi fyrir fiskvinnslurnar.“

„Þessar rannsóknir á hýdrólýseríngu á fiskpróteinum og þessi fullnýtingarumræða öll hefur þanist út síðastliðin 20 ár. Það var varla nokkur maður að pæla í þessu fyrir svona 20 árum, en núna eru allir að skoða þetta,“ segir Bergur. „Síðan er þetta að verða vandamál alls staðar í heiminum, hvað á að gera við afganginn þegar búið er að taka flakið.“

„Við vorum til dæmis komin á ágætis skrið í Maine við að reyna að vinna úr humrinum þar, en þeir auðvitað lenda í vandræðum því þeir taka bara halann. Hann er verðmætastur,“ segir Þórður. „Afganginum hafa þeir hent hingað til en eru að lenda í vandræðum því þeir mega ekki urða lengur. Þannig að hvað eiga þeir að gera?“

„Þannig að það er tvennt í þessu. Það er bæði verið að auka verðmæti aflans, og síðan eru þessi umhverfissjónarmið orðin ansi sterk,“ bætir Þórður við.