Heimild hefur verið gefin til þess að selja varðskipin Ægi og Tý og kaupa eða leigja hagkvæmari skip í staðinn.
Þetta kemur fram í breytingartillögu við fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2020.
„Landhelgisgæslan fagnar því að heimild verði veitt til að selja varðskipin Ægi og Tý. Skipin hafa reynst afar vel í gegnum tíðina en eru komin til ára sinna,“ segir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, í skriflegu svari til Fiskifrétta.
Hann útskýrir að Ægir hefur ekki verið í hefðbundnum rekstri í rúm fjögur ár og ekki sé til fjármagn til að koma skipinu í nothæft ástand. Ægir er rúmlega hálfrar aldar gamalt skip og varðskipið Týr var smíðað árið 1975.
Á næstu árum sé því fyrirséð að endurnýja þarf varðskipaflota Landhelgisgæslunnar.
Þá segir í svari Ásgeirs að dómsmálaráðuneytið hefur fengið verkfræði- og ráðgjafarfyrirtækið NAVIS til að gera þarfagreiningu á varðskipaflota Landhelgisgæslunnar og segja má að það sé fyrsta skrefið í endurnýjun varðskipaflotans.
Undanfarin ár hafa orðið breytingar á skipaumferð og þróun á hafinu umhverfis landið. Fleiri skemmtiferða- og flutningaskip koma hingað til lands og til þess þarf að horfa við uppbyggingu flotans. Á næstu árum væntum við þess að ákvarðanir verði teknar um endurnýjun skipanna.