Illa horfir með kolmunnastofninn ef ekki koma sterkir árgangar inn í hann í nánustu framtíð. Hrygningarstofninn hefur minnkað úr sjö milljónum tonna í þrjár milljónir síðan árið 2004.

Þetta kemur fram í greinargerð sérfræðings norsku hafrannsóknastofnunarinnar. Nákvæmar niðurstöður úr mælingum sumarsins á kolmunnastofninum liggja ekki fyrir en vísbendingar eru um að hrygningarstofninn sé nú þegar að komast niður fyrir varúðarmörkin sem eru 2,25 milljónir tonna.

Ennþá hefur ekki orðið vart við neina sterka árganga í nýliðun sem þýðir að búast má við tillögum um verulegan kvótaniðurskurð á næsta ári, að því er segir í Fiskeribladet/Fiskaren í Noregi.

Kolmunnakvótinn í ár í Norðaustur-Atlantshafi er 540.000 tonn en fyrir 4-5 árum var ársaflinn af þessum fiski vel yfir tvær milljónir tonna.

Því má bæta við að kolmunnaafli Íslendinga komst í rúmlega 500.000 tonn árið 2003, en kvóti okkar í ár er 84.000 tonn.