Fiskaflinn í maímánuði nam rúmlega 65.000 tonnum samanborið við 43.000 tonn í sama mánuði í fyrra. Aukningin er rúmlega 50% og skýrist nær eingöngu af kolmunnaafla sem nam 19.500 tonnum í maí núna en enginn uppsjávarafli veiddist í maí á síðasta ári.
Heildarafli íslenskra skipa í nýliðnum maímánuði, metinn á föstu verði, var 11% meiri en í maí 2011, segir í frétt frá Hagstofu Íslands. Það sem af er árinu hefur aflinn aukist um 27% miðað við sama tímabil 2011, sé hann metinn á föstu verði. Afli á föstu verði er reiknaður út til þess að finna breytingu á verðmæti heildaraflans að gefinni þeirri forsendu að verðhlutföll milli einstakra fisktegunda séu þau sömu og á ákveðnu viðmiðunarári sem hér er árið 2010.
Litlar breytingar urðu á afla mikilvægustu botnfisktegundanna í maí nú miðað við sama mánuð í fyrra. Af þorski veiddust 17.300 tonn, ýsu 4.500 tonn, karfa 4.600 tonn og ufsa 5.200 tonn.
Sjá nánar á vef Hagstofunnar.