Börkur NK er á landleið með fullfermi af kolmunna og er þetta síðasta veiðiferð hans á yfirstandandi vertíð. Hann er væntanlegur til Neskaupstaðar í fyrramálið. Hákon EA er einnig á landleið og kemur til Neskaupstaðar í dag. Beitir NK kom úr sinni síðustu veiðiferð á vertíðinni um sl. helgi.
Sturla Þórðarson skipstjóri á Berki sagði að framan af þessari síðustu veiðiferð hefði veður verið óhagstætt en undir lokin batnaði það og þá brast á mokveiði. Skipið var fyllt í 6 eða 7 holum en Börkur lestar 1800 tonn. Veiðisvæðið var 40-50 mílur suð-suðvestur af Akrabergi en Akrabergið er syðsti oddi Færeyja.
Frá þessu er skýrt á vef Síldarvinnslunnar.