Íslensk uppsjávarskip tóku stímið í byrjun vikunnar eftir jólastopp suður að miðlínunni milli Skotlands og Færeyja þar sem spurnir voru af ágætri kolmunnaveiði. Þar eru fyrir ein fimmtán færeysk og rússnesk skip að veiðum. Leyfilegur heildarafli íslenskra skipa eykst verulega á yfirstandandi ári, fer úr rúmum 150 þúsund tonnum 2022 í rúm 270 þúsund tonn.

Jóhann Kristjánsson skipstjóri og stýrimaður var í brúnni á Aðalsteini Jónssyni SU 11 þegar skipið var skammt suðaustur af Suðurey í Færeyjum. Jóhann hefur marga fjöruna sopið og verið til sjós frá árinu 1976. Hann var skipstjóri á Hólmaborginni og svo Aðalsteini Jónssyni og loks nokkur ár til sjós í sunnanverðri Afríku. Hann er bróðir Þorsteins, forstjóra Eskju.

Jóhann Kristjánsson skipstjóri.
Jóhann Kristjánsson skipstjóri.

„Við lögðum í hann rétt fyrir hádegi á þriðjudag og fengum leiðindaveður í byrjun en svo er bara rjómablíða hérna núna. Menn eru bara nýstaðnir upp frá jólasteikinni svo að heldurðu að þetta sé álag? Við verðum komnir um tvöleytið í dag [miðvikudag] á miðlínuna milli Færeyja og Skotlands. Þarna rokkar kolmunninn á línunni og tekur strauið aðeins inn í færeysku lögsöguna. Hann fer nú víða kolmunninn og við vorum að veiða fínasta fisk í október á síðasta ári í Rósagarðinum. Það jafnvel spurning hvort kolmunni haldi sig ekki líka þarna vestar en það eru engin skip þar til að kanna það,“ segir Jóhann.

Allt í mjöl og lýsi

Hann segir að það séu ein þrettán færeysk skip og einn Rússi við miðlínuna og Beitir og Börkur voru á stíminu þangað rétt á undan Aðalsteini Jónssyni. Skipin eru þétt upp við hvert annað sem bendir til þess að þar sé fiskur. Það hafði verið fín veiði þegar síðast fréttist í byrjun vikunnar. Kolmunnakvóti Íslendinga er stór og verða því væntanlega nokkrir túrar farnir á þessar slóðir, alla vega þar til loðnuveiðar hefjast. Að þeim afloknum verður haldið áfram með kolmunnaveiðar í færeyskri lögsögu í vor og vonandi í Rósagarðinum í haust. „Planið er alla vega gott en svo er bara spurning hvort það gangi eftir,“ segir Jóhann kíminn.

Sem fyrr segir eru uppsjávarskip Síldarvinnslunnar á leið á miðin og fer kolmunninn sem þar veiðist allur í mjöl- og lýsisframleiðslu. Það verða því næg verkefni fyrir fiskimjölsverksmiðjurnar í Neskaupstað og á Seyðisfirði. Gert er ráð fyrir að verksmiðjurnar taki á móti yfir 100 þúsund tonnum af kolmunna á árinu og er það veruleg aukning frá því í fyrra. Hafþór Eiríksson, rekstrarstjóri fiskimjölsverksmiðjanna, segir að í fyrra hafi verksmiðjurnar samtals tekið á móti 77 þúsund tonnum af kolmunna – verksmiðjan í Neskaupstað tók á móti 49 þúsund tonnum og verksmiðjan á Seyðisfirði 28 þúsund tonnum. Nú í ár sé hins vegar gert ráð fyrir að þær taki á móti 107 þúsund tonnum og þar af 78 þúsund tonnum frá Síldarvinnsluskipum.