Norska útgerðarfélagið Loran ráðgerir að láta smíða fyrir sig byltingarkennt línuskip sem að hluta til verður vetnisknúið. Plönin eru þau að draga um 40% úr notkun jarðefnaeldsneytis og skipið á að geta verið við veiðar án nokkurrar losunar.

Frá þessu er sagt í vefritinu Fiskerforum. Þar segir að nýr Loran, eins og skipið er nefnt, verði með tveimur 185 kW efnarafölum sem framleiða rafmagn úr vetni úr tönkum um borð í skipinu. Auk þess er gert ráð fyrir 2.000 kWst rafgeymastæðu. Ekki verður skipið þó án hefðbundinnar vélar því um borð verða dísilvélar sem eru nauðsynlegur hluti vélarbúnaðar skips sem verður í 4-6  vikna úthaldi við veiðar.

„Með því að verða fyrstir til að nýta vetni vonum við að nýr Loran verði fremst í flokki þeirra skipa sem marka nýtt upphaf við umhverfisvænni fiskveiðar,“ segir Ståle Otto Dyb, framkvæmdastjóri Loran í samtali við Fiskeforum.

Hann bætir því við að línuveiðar séu umhverfisvænustu veiðar sem hugsast geti, jafnt gagnvart lífríki sjávar og sjávarlífverum. Með vetni sem orkugjafa geti Loran orðið umhverfisvænasta fiskiskip sem sögur fari af. Vonir séu bundnar við að það muni endurspeglast í hærri afurðaverðum.

Ríkisstyrkir og stuðningur

Nýr Loran verður um 70 metra langur eða talsvert lengri en hefðbundið línuskip og orkukerfin verða blanda dísilvéla, rafgeymastæðu og vetnisknúnum orkukerfum. Breidd skipsins verður 16,2 metrar.

Gastankarnir verða aftan við brúna og á þessu stigi er miðað við að stuðst verði við vetni í gasformi undir þrýstingi. Verði það talið hagkvæmara að nota fljótandi vetni eða annað eldsneyti eins og t.d. ammóníak, verður sú leið fær með lítilsháttar breytingum.

Skipið er hannað af norska fyrirtækinu Skipsteknisk sem á samtarf við siglingamálastofnun Noregs hvað varðar öryggisþáttinn og eftirfylgni við reglugerðir. Verkefnið nýtur stuðnings nýsköpunarmiðstöðvar norska viðskipta-, iðnaðar- og sjávarútvegsráðuneytisins, Innovasjon Norge.

Meginþættir í hönnun skipsins beinast að orkusparnaði, varmaendurheimt og virkni án nokkurrar losunar gróðurhúsalofttegunda þegar það er knúið vetni. Litið er á að verkefnið geti dregið úr kostnaði, ekki síst þróunarkostnaði, fyrir önnur skip til framtíðar. Verkefnið nýtur stuðnings Enova, þróunarsjóðs á vegum loftslags- og umhverfisráðuneytis Noregs, sem fjárfestir á hverju ári fyrir meira en 3 milljarða NOK, rúma 43 milljarða ÍSK, í grænum lausnum. Enova styrkir verkefnið um rúman 1,3 milljarða ÍSK.

Fyrstir í heiminum

Norska ríkisstjórnin stendur einnig þétt að baki verkefninu.

„Það er stefna stjórnvalda að hafa helmingað losun frá skipaflotanum árið 2030. Vetni er mikilvægur orkugjafi fyrir skip sem í löngum siglingum,“ segir Espen Barth Eide, ráðherra loftlags- og umhverfismála norsku ríkisstjórnarinnar.

„Það er afar ánægjulegt að fyrirtæki með framtíðarsýn eins og Loran fjárfesti í umhverfisvænni tækni með nýsköpun innan sjávarútvegsins. Þeir ætla að koma Noregi á kortið með því að verða fyrstir í heiminum til að gera út vetnisknúið fiskiskip,“ segir Eide.