Kjölur var lagður að nýju hafrannsóknaskipi Hafrannsóknastofnunar í skipasmíðastöðinni Astileros Armon í Viga á Spáni í byrjun febrúar. Tafir hafa orðið á smíðinni en vonir standa til þess að hægt verði að vinna þær upp á smíðatímanum. Stefnt er að því að skipið verði sjósett í lok september í ár og afhent ári síðar.

Þjóðfánar Íslands og Spánar prýddu kjölinn. Mynd/aðsend
Þjóðfánar Íslands og Spánar prýddu kjölinn. Mynd/aðsend

Nýja rannsóknaskipið leysir Bjarna Sæmundsson þá af hólmi og mun gerbreyta og bæta aðstöðu til rannsókna. Bjarni Sæmundsson var smíðaður árið 1970 og verður því kominn á 55. aldursár þegar nýja skipið tekur við. Tilkynnt var fyrst um smíði nýja rannsóknaskipsins á sérstökum hátíðarfundi í tilefni af aldaramæli fullveldis Íslands, sem haldinn var á Þingvöllum 18. júlí 2018. 300 milljónum var varið í hönnun og undirbúning smíðarinnar á því ári og 3,2 milljörðum verður varið í smíði sjálfs skipsins.

Flest á áætlun

Upphaflega stóð til að kjölur yrði lagður að skipinu fyrir sex vikum. „Töfin helgast að stærstum hluta til af því að Armon skipasmíðastöðin var að taka yfir aðra skipasmíðastöð sem kallaði á ákveðnar breytingar hjá þeim. Að öðru leyti gengur verkið vel og flest á áætlun en annað jafnvel á undan áætlun,“ segir Þorsteinn Sigurðsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar.

Framkvæmdin gengur þannig fyrir sig að Hafrannsóknastofnun setur fram lýsingu á þeim búnaði sem krafist er í skipinu og skipasmíðastöðin kemur með hugmyndir að lausnum. Stofnunin þarf í framhaldinu að samþykkja tillögurnar séu þær í samræmi við smíðalýsinguna og staðla. Með stærri þáttum í búnaði eru vélar og spilbúnaður. Skipið verður með tvinnaflrás. Dísilvélarnar munu koma frá belgíska framleiðandanum ABC en framdrifsrafmótor frá Indar. Búnaður frá a.m.k. þremur íslenskum fyrirtækjum verður í skipinu, þar á meðal spilbúnaður frá Naust Marine, hluti rafeindabúnaðar frá Marport og vigtarkerfi á millidekki frá Marel.

Þorsteinn Sigurðsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar. FF MYND/HAG
Þorsteinn Sigurðsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar. FF MYND/HAG
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

„Samkvæmt samningum á að afhenda skipið í september á næsta ári. Það veltur síðan á því hvort seinkun á kjöllagningu hafi áhrif á afhendingartímann eða hvort það standist að skipasmíðastöðin vinni upp þær tafir sem hafa orðið,“ segir Þorsteinn. Ekkert bendi til annars en að það ætti að geta að gengið upp. Ekki hafi heldur neitt komið upp til þessa í smíðaferlinu sem kalli á aukin fjárútlát.

Minna jarðefnaeldsneyti

Það var Skipasýn ehf. sem forhannaði skipið og rammaði það inn í þá fjárveitingu sem ætluð er til smíðinnar. Það verður 70 metrar á lengd og við hönnun þess var horft til ýmissa leiða til að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis. Til lýsingar verður notuð LED tækni, spilbúnaðurinn verður rafdrifinn, til upphitunar verður notuð afgangsorka frá kælivatni aðalvéla og vistarverum verður skipt upp þannig að einungis verði loftræstar þær sem eru í notkun hverju sinni. Skipið verður tengt við landrafmagn þegar það er í höfn og gert er ráð fyrir að settir verði upp varmaskiptar í heimahöfn í Hafnarfirði þannig að skipið verði hitað upp með vatni frá hitaveitu í landlegum.

Þrjár skipasmíðastöðvar á Norður-Spáni buðu í smíðina á nýja hafrannsóknaskipinu og varð Armon fyrir valinu. Sú stöð smíðaði meðal annars nýjan Baldvin Njálsson GK sem Skipasýn hannaði einnig. Þá er Armon nú með fyrstu nýsmíði Þorbjarnar hf. í Grindvík í meira en hálfa öld í fullum gangi sem, eins og tvö fyrrgreindu skipin, er hönnuð af Skipasýn. Ráðgert er að það skip verði afhent á fyrri hluta næsta árs.