Sigurður Friðriksson, Diddi Frissa, skipstjóri og útgerðarmaður frá Sandgerði átti litríkan sjómannsferil. Sjómennskan hófst þegar Diddi var 12 ára gamall, útgerðin hóf starfsemi 1. ágúst 1988 en á afmælisdegi hans 19 apríl 2004 gekk hann í land frá borði Guðfinns KE 19. Hann gerði út smábáta næstu tvö árin en lét þar staðar numið.

Ásmundur Friðriksson alþingismaður er höfundur bókarinnar um Didda Frissa, skipstjóra og útgerðarmann, sem kemur út í haust. Mynd/Eggert Jóhannesson
Ásmundur Friðriksson alþingismaður er höfundur bókarinnar um Didda Frissa, skipstjóra og útgerðarmann, sem kemur út í haust. Mynd/Eggert Jóhannesson

Ferill Didda er viðburðarríkur, rekinn áfram af dugnaði og brjóstviti og varðaður stórskemmtilegum atvikum og sögum hörku sjómanns og sjósóknara sem aldrei gaf neitt eftir og var kjarkaður til sjós og lands. Hér eru brot úr lífssögu Didda sem kemur út á bók á Ljósanótt í Reykjanesbæ í byrjun september. Bókin er skrifuð af Ásmundi Friðrikssyni og það er Ugla, Jakob Ásgeirsson, sem gefur bókina út.

Áhættufíkn og slagsmál við sóknarprestinn

Ég átti það til að vera einfari, vera sjálfum mér nægur og fara mínar eigin leiðir aleinn. Skólagangan var stopul á köflum og námið mætti alltaf afgangi. Stundataflan var ekki til þess að trufla mín mikilvægu plön. Ég átti mína eigin stundatöflu sem hljóðaði svona: Lestur, lestur, hljóðlestur, skrift og frítími. Dagurinn búinn. Stundataflan var fyrir krakkana í skólanum, ekki mig. Ég var því oft aleinn að sinna áhugamálum mínum niður við höfn á meðan jafnaldrar mínir undirbjuggu framtíðina með námi. Mitt helsta tómstundargaman og uppáhaldsleikstaður voru klappirnar og Eyrin vestan við höfnina. Þar gat ég alveg gleymt mér tímunum saman vappandi á milli polla á fjörunni. Þar tíndi ég upp rauðmaga sem voru innlyksa þegar fjaraði út. Ég gerði ekkert skemmtilegra. Það var spenningurinn hvað ég næði í marga rauðmaga sem ég græddi nokkrar krónur á að selja í hús. Ég var svo spenntur að ég gleymdi alveg stund og stað. Þá kom það fyrir að það flæddi að og ég sjálfur var orðinn eins og rauðmagi, fastur á Eyrinni og sjórinn sótti að mér á alla kanta. Það er alveg merkilegt að ég hafi ekki steindrepið mig í þessum ævintýraferðum. Ég setti rauðmagann í strigapoka sem ég dröslaðist með eftir köppunum og var stundum kominn á kaf í sjó. Það síðasta sem ég mundi gera var að sleppa pokanum með rauðmaganum í, fyrr dræpist ég. Það vissi auðvitað enginn hvar ég var, því ég átti að vera í skólanum. Þá voru engar líkur á því að einhver í bænum sæi til mín lengst úti á Eyri og kæmi mér til hjálpar. Stundum stóðu bara axlirnar og hausinn upp úr sjónum við Músasund og það var ekki merkileg þúst sem fólk gæti séð úr þorpinu. Jesús minn, hvað ég hélt oft að ég væri að drepast. Drukkna úti á Eyri fyrir nokkra rauðmaga, það var auðvitað helvíti hart en ég sleppti aldrei pokanum. Loks þegar ég náði landi og lagðist á klöppina vissi ég varla hvort ég væri lifandi eða dauður. Ég var nú bara 8 ára þegar ég lenti í þessu fyrst, en þetta vandist.

Diddi og Hólmgrímur eru samrýmdir vinir. Hólmgrímur er tengsl Didda við sjóinn og fiskvinnsluna sem var honum lífsstarf og lífsmáti.
Diddi og Hólmgrímur eru samrýmdir vinir. Hólmgrímur er tengsl Didda við sjóinn og fiskvinnsluna sem var honum lífsstarf og lífsmáti.

Enginn smá skóli

Jón Guðmundur Benediktsson, háseti hjá Didda, segir frá:

Þegar ég byrjaði að róa með karlinum fékk ég eins og allir aðrir fyrstu lexíuna í tímasetningum og mætingu. Við vorum um borð að gera klárt fyrir rækjuna og það var tilhlökkun í bílnum á heimleiðinni fyrir því að hefja rækjuveiðar við Eldey næsta dag. Þegar Diddi hendir mér út tilkynnir hann mér að hann sé alltaf á réttum tíma að sækja karlana. Honum fannst alveg frábært hvað það var stutt á milli okkar og hann sagði við mig: „Ég legg í‘ann kl. 6.30 að heiman og er hjá þér nákvæmlega einni og hálfri mínútum síðar, flauta tvisvar og þá er klukkan 6.32. Ef þú ert ekki klár verður engin miskunn og ég skil þig eftir.“ Lífið hjá Didda var eins og formúlukeppni. Sækja karlana, drífa sig í Sandgerði og láta fyrstur úr höfn. Þannig hófst fullkominn róður hjá Didda Frissa.

Nonni Ben var háseti á Guðfinni á blómaskeiði rækjuveiða við Eldey. Í hans huga var sjómennskan með Didda á við háskólanám lífs hans.
Nonni Ben var háseti á Guðfinni á blómaskeiði rækjuveiða við Eldey. Í hans huga var sjómennskan með Didda á við háskólanám lífs hans.

Hann var magnaður fiskimaður og sem slíkur naut hann virðingar. En þeirri velgengni fylgdi einnig öfund og umtal. Það er hluti veiðimannasamfélagsins þar sem allir fylgjast með öllum. Þar eiga allir sinn uppáhalds bát og skipstjóra og mikill metnaður sem fylgir sjónum. Þetta þekkja allir sem átt hafa heima í sjávarplássi á Íslandi og frá barnsaldri vorum við strákarnir að metast um hver þekkti bátana á vélarhljóðinu eða masturstoppunum einum saman.

Árið skiptist í þrjú hefðbundin úthöld, það var róið á rækju frá mánaðarmótum maí/júní og út ágúst. Lína á haustin og vetrarvertíðin innsiglaði oft árið með góðri netavertíð.

Rækjuveiðin var spennandi og við fiskuðum eitt helvíti á þennan litla pung sem Guðfinnur var áður en hann fór í breytingarnar. Við sigldum út Sundið og vorum einskipa þennan fyrsta veiðidag á rækjunni. Þegar við vorum komir á miðin við Eldey var trollinu kastað. Diddi tók hring með trollið, skveraði vængina vel áður en hann kallaði „Lagó“ og við horfðum á hlerana sökkva í hafið. Nú mátti rækjan vara sig!

Diddi breytti ekki út af neinu frekar en áður. Yngsti maðurinn um borð tók alltaf fyrsta togið og það kom í minn hlut og mér fannst það spennandi að vera treyst í stólinn í fyrsta róðri. Þegar ég var orðinn einn í stýrishúsinu fór ég að hugsa hvað mér fannst Diddi alltaf vera kvalinn. Hann var gigtarsjúklingur og sjúkdómurinn minnti stöðugt á sig í miskunnarleysi sínu. Það leið hvorki dagur á sjó eða í landi að hann var ekki sárkvalinn og hann þurfti á því að halda að hvíla sig fyrir langar stöður á rækjunni. En veikindin og verkina sigraði hann eins og allt annað.

Guðfinnur, þessi 30 tonna pungur, veiddi á við togara, svo ævintýralegur var aflinn á köflum og fór ósjaldan í taugarnar á öðrum.

Ég heillaðist af sjómennskunni og Diddi fór í auknum mæli að taka mig upp í brú að toga og sýna mér meiri ábyrgð. Ég var ungur og kappsamur og sótti því um í Stýrimannaskólann og fór þangað veturinn 1986–7. Þegar ég kom til baka fann ég að Pétri og Birki leist ekki á blikuna ef bæta ætti öðrum brjálæðingi við í brúna!

Guðfinnur hefði getað sokkið eins og múrsteinn

Í stærsta róðrinum þessa vertíð fylltum við öll kerin í lestinni á fyrstu trossunum og dekkið upp í lunninguna þegar síðasta netið kom inn. Við lentum meira að segja í vandræðum með lofttúðurnar fyrir vélarúmið sem lágu upp með stýrishúsinu og stífluðust af fiski sem lá fyrir loftinntakinu. Á landstíminu þurftum við reglulega að draga fiska frá inntökunum svo öndunin niður í vélarrúm væri opin. Báturinn var á skammdekki og það litla sem sást upp úr sjónum var stefnið, stýrishúsið og mastrið. Annars marraði hann í sjónum eins og sokkið baðker. Þetta var ótrúlega spennandi en ógnandi staða úti í ballarhafi á þessari litlu skel sem gat hæglega sokkið undan okkur eins og múrsteinn á augabragði. Staðan um borð var svo svakaleg að Diddi varð að koma bátnum á ferð sem fyrst svo hann lyfti sér á sjónum. Við Birkir, Pétur og Börkur Birgisson vorum aftur á að henda fiski á milli borða eftir því hvernig báturinn fór að halla á siglingunni. Pétur fór reglulega niður í vélarrúm til að lensa bátinn og allt var gert til að halda honum ofansjávar.

Það voru margir góðir sjómenn sem Diddi tók þátt í að ala upp og veita ærlega reynslu við margskonar skilyrði á sjó. Frá því er sagt í bókinni.
Það voru margir góðir sjómenn sem Diddi tók þátt í að ala upp og veita ærlega reynslu við margskonar skilyrði á sjó. Frá því er sagt í bókinni.

Við karlarnir lágum í fiskihrúgunni aftur á dekki og þorðum varla að hreyfa okkur og horfðum á múkkann fyrir ofan okkur sveima fram og til baka með bátnum. Það mátti lesa úr undrunarsvip þeirra að þeim leist ekki á blikuna, þessi bátur væri alveg við það að sökkva. Diddi kom líka svífandi eins og múkki í sjógalla út um stjórnborðshurðina á stýrishúsinu og spurði hvort ekki væri allt í lagi. „Jú það er allt í lagi nema hvað þú ert snar klikkaður,“ svaraði ég alltaf.

Heimstímið gekk ótrúlega vel nema þegar Þorsteinn KE 10 var að leggja net þvert á siglingaleiðina. Hafsteinn Ingólfsson, skipstjóri á Þorsteini, sér hvað er að gerast og honum brá mjög þegar hann áttaði sig á því að karlarnir á Guðfinni voru að henda fiski milli borða svo báturinn gæti beygt fram hjá trossunni sem var verið að leggja í sjó. Við veifuðum þeim á Þorsteini þegar við sigldum fram hjá og gáfum óspart til kynna ánægju okkar með aflabrögðin þrátt fyrir að allt léki á lyginni hjá okkur og engu mætti muna að báturinn færi á hliðina í bogadreginni beygju. En það kom ekki til greina að henda einum sporði fyrir borð til að létta bátinn. Diddi hefði frekar hent einum okkar í sjóinn en einum fiskisporði, enda bannað með lögum að henda fiski fyrir borð! Við náðum að lokum að lóna inn Sundið og vorum þreyttir og en ánægðir þegar búið var að binda bátinn.

Það komu 27 tonn upp úr bátnum sem var algjört met og ótrúlegt að við náðum landi áfallalaust með svo mikinn afla. Áður en við héldum heim var kaffi í lúkarnum og við fórum við að rifja upp hvað oft við hefðum lent í erfiðum aðstæðum úti á sjó og ekkert litist á blikuna. Eiginkona Birkis, sem var með Didda í 13 ár, hafði oft verið hrædd um karlinn sinn. Hún hafði rætt þessar áhyggjur sínar við Didda sem afgreiddi þetta mál út af borðinu í eitt skipti fyrir öll: „Heyrðu, elskan mín, ef þú ert hrædd um karlinn, þá skaltu bara kveðja hann vel og vandlega í hvert einasta skipti sem hann fer á sjó með mér. Það er öruggara ef hann kæmi ekki aftur.“ Og þegar við fórum að minnast á þetta við Didda að eiginkonurnar hefðu áhyggjur af körlunum sínum, einskipa úti í sjó í skítabrælum þá tók hann bakföll af hlátri. „Þær geta þá bara fengið sér aðra gæja ef þær þola ekki að við róum eins og menn,“ sagði Diddi ískaldur. Kannski var þetta hroki en svarið var sprottið af munni manns sem bjó yfir óvenjulegum dugnaði og áræði. Það fylgdi honum ára gæfu sem var ástæðan fyrir verðmætustu plássunum í flotanum og ævintýralegum tekjum á Guðfinni. Í öllum þessum djöflagangi í Didda bjó hann samt yfir stóískri ró. Hann var alltaf viss í sinni sök um að hann væri að gera rétt og þegar skipstjóraferillinn er skoðaður þá fór hann áfallalaust í gegnum þetta allt saman. Það var enginn smá skóli að vera á sjó hjá svona gaur.