Ný gögn frá sjávarútvegsstofnun Rússlands, Rosrybolovstvo, sýna að Rússar reiða sig stöðugt meira á fiskútflutning til Kína og fjölda annarra nýrra markaða til að vega upp á móti viðskiptaþvingunum og ofurtollum sem lagðir eru á rússneskar sjávarafurðir á Vesturlöndum. Sagt er frá þessu á IntraFish.
Tvö ár eru liðin frá því að viðskiptabann og ofurtollar voru teknir upp í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu. Á þessum tíma hafa Rússar stöðugt aukið útflutning til Kína og 80 annarra landa. Heildarútflutningur á sjávarafurðum jókst á síðasta ári um 9% og fór í 2,5 milljónir tonna, samkvæmt Rosrybolovstvo. Útflutningur til Kína jókst á sama tíma um 36% og náði methæðum í 1,29 milljónum tonna. Útflutningsverðmætin jukust þó ekki nema um 4,8% og náðu 2,89 milljörðum dollara, 389 milljörðum ÍSK.
Bandarísk stjórnvöld hafa lagt blátt bann við innflutningi á rússneskum sjávarafurðum en Evrópusambandið hefur lagt tolla á ufsa og þorsk og um leið lokað höfnum eða takmarkað aðgengi rússneskra skipa að evrópskum höfnum. Um 60% af heildarfiskútflutningi Rússa er ufsi. Aðrar tegundir sem skipta Rússa miklu máli í útflutningi er síld, sardína, fiskmjöl og krabbi. Stærstu innflutningslönd á rússneskum sjávarafurðum eru Kína, Suður-Kórea, Japan, Nígería og Holland og Þýskaland, sem eru hlið inn í Evrópusambandið fyrir rússneskan fisk sem þar er unninn og seldur áfram.
Fyrstu fimm mánuði þessa árs fluttu Kínverjar inn 523 þúsund tonn af sjávarafurðum frá Rússlandi sem er svipað magn og fyrir sama tímabil í fyrra. Þetta er um helmingur af heildarútflutningi sjávarafurða frá Rússlandi. Rosrybolovstvo birtir lista yfir nýja markaði þar sem Rússar hafa haslað sér völl. Þarna má finna ríki eins og Albaníu, Angóla, Bangladess, Vanuatu, Guyana, Katar, Líberíu, Marokkó, Níger, Palau, Panama, St. Vincent og Grenadines, St. Kitts og Nevis, Síerra Leóne, Tansaníu, Svartfjallaland, Chile og Suður-Afríku. Þess er vænst að útrás Rússa inn á nýja markaði haldi áfram. Þá hefur nýlega verið gengið frá vottun á rússneskum sjávarafurðum sem opnar fyrir innflutning á þeim til Kúveit. Þar er einkum um að ræða innflutning á dýrari afurðum eins og krabbakjöti, rækju, beitukóngi en einnig þorski og laxaflökum.