Alexander John Polson fékk á dögunum afhentan nýjan Cleopatra 31 bát frá Bátasmiðjunni Trefjum í Hafnarfirði. Bátinn ætlar John að gera út á strandveiðar frá Grindavík þar sem hann býr. Alexander á að baki langan feril sem útgerðarmaður og sjómaður í Hvalsey sem er sjötta stærst Hjaltlandseyja.

Alexander er skoskur maður af sjómannaættum. Afar hans í móður- og föðurætt voru fiskimenn og allt hans fólk hefur haft atvinnu af fiskveiðum. Alexander rak í mörg ár útgerðina Research í Hvalsey sem gerði út fimm snurvoðarbáta þegar mest var umleikis. Hann segir að miklar samfélagsbreytingar hafi orðið á Hjaltlandseyjum á síðustu árum. Áður hafi sjávarútvegur verið stærsti atvinnuvegurinn en á mörgum af eyjunum hefur mikilvægi olíuvinnslunnar í Norðursjó og laxeldi aukist á kostnað fiskveiða.

Þegar Alexander  greindist með húðsjúkdóminn sóríasis fór hann að venja komur sínar reglulega til Íslands í þeim tilgangi að fara í böðin í Bláa lóninu. Kísill í affallsvatninu er sagður hafa góð áhrif á sjúkdóminn. Í lóninu kynntist Alexander núverrandi eiginkonu sinni, Gróu Sigurbjörnsdóttur, og þau gengu í hjónaband 7.7. 2007.

Sjórinn togar

Alexander seldi útgerðarfélag sitt á Hjaltlandseyjum fyrir tveimur árum en fram að því hafði hann stundað sjóinn meðan á vertíð stóð en dvalist þess á milli í Grindavík. Nú er hann sestur að hér á landi en á áfram hús í Hvalsey. Hann er í raun sestur í helgan stein eftir 53 ára feril sem sjómaður og útgerðarmaður. Sjórinn togar þó alltaf í hann og hann vildi eiga bát. Þetta er með öflugri bátum í strandveiðikerfinu, 9,6 metrar á lengd og lestin rúmar tólf 380 lítra fiskikör. Alexander hafði ekki enn haldið til veiða þegar blaðamaður heimsótti hann en hefur prófað bátinn í styttri ferðum.

„Ég hef alla tíð átt lítinn bát fyrir sjálfan mig og mér fannst ég verða að eiga bát hérna líka. Mér líður vel út á sjó. Ég er með strandveiðileyfi en ég þarf að fá einhvern til þess að kenna mér þessar veiðar sem ég hef ekki stundað hérna áður. Ég veit ekki alveg hvenær ég fer á sjó því sá sem ætlaði með mér er upptekinn í öðrum verkefnum núna. Konan mín vill ekki að ég fari einn á sjó,“ segir Alexander og hlær.

Lífsfylling

Í bátnum eru þrjár DNA tölvustýrðar rúllur og ein handstýrð sem Alexander vill hafa til þess að fá tilfinningu fyrir því þegar fiskur  bítur á.

„Ég hlakka til að prófa þessar veiðar og sjá hvort ég nái tæpum 700 kílóum á dag þótt ég eigi nú frekar ekki von á því. Ég myndi þá selja aflann á markaðnum hér og núna fæst mjög hátt verð fyrir fiskinn. En ég er fyrst og fremst að þessu fyrir lífsfyllinguna og ánægjuna frekar en til þess að vinna fyrir mér. Þegar ég seldi fyrirtækið mitt eignaðist ég dálítið af peningum og ákvað að slá til frekar en að hafa peninginn á bankareikning.

Research GK. Mynd/Trefjar
Research GK. Mynd/Trefjar

Þetta er besti smábáturinn sem ég hef nokkru sinni átt. Hann er vel smíðaður og ég er í skýjunum með hann ,“ segir Alexander sem er ekki alveg ókunnur bátunum frá Trefjum því mágur hans á Hjaltlandseyjum á einn.

Aðstaðan í stýrishúsi bátsins er öll eins og hún gerist best fyrir bát af þessari stærð. MyndTrefjar
Aðstaðan í stýrishúsi bátsins er öll eins og hún gerist best fyrir bát af þessari stærð. MyndTrefjar

Báturinn er búinn þremur DNG rúllum en einni vöðvarúllu til viðbótar.
Báturinn er búinn þremur DNG rúllum en einni vöðvarúllu til viðbótar.