Hátæknifyrirtækið Micro í Hafnarfirði er að ljúka prófunum á einu fullkomnasta laxasláturhúsi í heimi fyrir Arctic Fish í Bolungarvík og er nú að smíða minna kerfi fyrir laxeldi Mowi í Skotlandi. Auk þess er fyrirtækið að smíða vinnsludekkið á nýjan skuttogara Þorbjarnar hf. í Grindavík sem verið er að smíða á Spáni. Micro hefur vaxið mikið á undanförnum misserum og í hópinn hafa bæst hugbúnaðarhönnuðir og þjónustudeild enda eru vörurnar orðnar umtalsvert þróaðri og byggja á samspili vélrænna og stafrænna lausna.

Sama dag og blaðamaður leit við hjá Micro í Hafnarfirðinum stóð yfir önnur „blautprófunin“ á kerfinu frá Micro í laxasláturhúsi Arctic Fish í Bolungarvík þegar 4.000 fiskar fóru í gegnum kerfið. Þurrprófanir hafa verið gerðar á búnaðinum án afurða og tvær blautprófanir verða gerðar með afurðum. Fyrsta blautprófunin var þegar um 1.000 fiskar fóru í gegnum kerfið og gekk hún með ágætum. Þetta er í fyrsta sinn sem Micro framleiðir svo stóran hluta af heilli vinnslulínu en hún samanstendur af flokkara, pökkun í kassa og kassamötunarkerfi. Að afloknum sumarfríum er stefnt að því að hefja fulla vinnslu í nýja sláturhúsinu.

6-8 þúsund kassar á dag

Micro smíðar einnig kassamötunarkerfið. Þegar laxasláturhúsið verður komið í fullan rekstur notar það á bilinu 6-8 þúsund frauðplastkassa á dag. Flokkarinn getur stærðar- og gæðaflokkað 110 fiska á mínútu. 4-6 fiskar fara í kassa, sem er ísaður, fær lok og er „strappaður“, merktur og raðað á pallettur en um það sjá þjarkar frá Samey. Samkvæmt þessu á kerfið að ráða við að setja að hámarki 48 þúsund fiska á dag í kassa og ganga frá þeim á pallettur. Miðað við meðalþyngd á eldislax í sláturstærð á kerfið að ráða við frágangi á um 140 tonnum af laxi á dag.

Samstarfsaðili Micro í þessu verkefni en norska fyrirtækið CodeIT sem sér um hugbúnaðarhluta kerfisins. CodeIT hefur unnið fyrir mörg af stærstu laxeldisfyrirtækjunum í Noregi, þar á meðal Mowi sem er stærsti laxeldisfyrirtæki heims. Gunnar Óli Sölvason, framkvæmdastjóri Micro, segir samstarfið hafa gengið ljómandi vel og útlit fyrir að það haldi áfram í þeim fjölmörgum verkefnum sem framundan eru í uppbyggingu laxeldis hér á landi og erlendis.

Frá því samningur milli Micro og Arctic Fish var gerður um þetta verkefni hafa orðið eigendaskipti og Arctic Fish nú í meirihlutaeigu Arctic Fish Holding sem er alfarið í eigu norska laxeldisrisans Mowi Marine Harvest. Meðal dótturfyrirtækja er Mowi Scotland. Micro mun í haust setja upp kassakerfi í eldisstöð Mowi í Skotlandi.

Allt vinnsludekkið á Huldu Björnsdóttur GK

Nýsmíði Þorbjarnar, sú fyrsta síðan 1967, mun bera nafnið Hulda Björnsdóttir GK 11, og er áætluð afhending á fyrri hluta næsta árs. Micro er að smíða vinnslubúnaðinn í skipið og fer hann í gáma og verður sendur til Spánar að sumarfríum afloknum. Gunnar Óli segir að verkþáttur Micro í nýsmíðinni lúti að öllu vinnsludekkinu, þ.e.a.s. móttöku, blæðingu, slægingu, tegundagreiningu, stærðarflokkun, pökkun og frágangi, pökkun og frágangi á aukaafurðum (hrogn og lifur) og meðhöndlun á körum. Kerfið byggir að vissu leyti á því sem Micro gerði í tengslum við nýsmíði Skinneyjar-Þinganess og Gjögurs í Noregi 2018 og 2019, þ.e. Vörð ÞH, Áskel ÞH, Steinunni SF og Þinganes SF en kerfið í Huldu er stærra. Micro hannar líka og smíðar hálfsjálfvirkt lyftukerfi þar sem afla er pakkað í kör á vinnsludekki og flutt niður í lest skipsins.. Þetta er eitt af stærri heildarkerfum sem Micro hefur hannað og smíðað.

Gunnar Óli Sölvason, framkvæmdastjóri Micro.
Gunnar Óli Sölvason, framkvæmdastjóri Micro.
© Guðjón Guðmundsson (.)

Fjórföldun á ársveltu

„Þetta kom eiginlega allt á einu og sama árinu. Við gerum stórt kerfi fyrir Arctic Fish í Bolungarvík, kassakerfi fyrir Mowi í Skotlandi og svo nýsmíði Þorbjarnar á Spáni. Fyrirtækið var stofnað 1996 og hefur vaxið og dafnað frá þeim tíma. 2017 var veltan um 300 milljónir kr. og á síðasta ári var veltan nær 1.100 milljónir króna og gert er ráð fyrir enn frekari vexti á þessu ári.. Á síðustu fjórum árum hefur veltan fjórfaldast. Ferðalagið sem við höfum lagt í er að færast úr því að einfaldur búnaðarframleiðandi yfir í það að vera lausnaframleiðandi. Núna afhendum við heil kerfi með hugbúnaði, vigtun, myndgreiningu, flokkun, lagermeðhöndlun, pantanameðhöndlun og svo framvegis. Það útheimtir hugbúnaðarmenn, rafvirkja, uppsetningamenn og þjónustu sem fyrir fjórum árum voru ekki innan fyrirtækisins,“ segir Gunnar Óli.

Íslensk tæknifyrirtæki misstu mörg spón úr sínum aski þegar viðskiptaþvinganir voru settar á Rússland í kjölfar innrásarinnar í Úkraínu í febrúar 2022. Meðal þessara fyrirtækja eru Naust Marine, Skaginn 3X og Kapp. Micro hefur ekki verið sett í þessa stöðu því þeir hafa heldur færst undan því að eiga viðskipti þar í landi.

„Við höfum aldrei selt neitt til Rússlands þrátt fyrir að við höfum í gegnum tíðina fengið óskir um að gera tilboð í ýmis verkefni. En þetta er yfirleitt í gegnum milliliði og við komumst ekki beint að kúnnanum. Fyrir vikið varð þetta dálítið flókið ferli og verkefnastaðan hefur líka verið með þeim hætti hjá okkur að við höfum ekki þurft á þessum verkefnum að halda“ segir Gunnar Óli.