Ola Helge Hjetland, talsmaður norska fyrirtækisins Mowi, sem á 51 prósent í laxeldisfyrirtækinu Arctic Fish á Íslandi, segir atburð eins og þann sem nú á sér stað í Tálknafirði geta gerst í allri lífrænni framleiðslu.
Þetta kemur fram í frétt norska vefsins iLaks.no. Sagt var frá þessari frétt á vef Bæjarins bestaá Ísafirði í dag. Eins og fram hefur komið þarf að farga um einni milljón laxa vegna hömlulausar lúsaplágu sem herjað hefur á fiskana auk baktería sem leggjast á sár þeirra.
„Við teljum þetta mjög miður og óásættanlegt,“ segir Hjetland við iLaks. Gera verði breytingar til að koma í veg fyrir slíka atburði.
Fyrirtækið hafi ekki getað brugðist við
„Við munum sjá til þess að þetta fyrirtæki komist upp á þann standard sem við erum með annars staðar í okkar sjókvíaeldi,“ segir Hjetland sem kveður vandann hafa magnast vegna stjórnsýslunnar á Íslandi. Reglurnar á Íslandi henti ekki fyrirtækjunum í baráttunni við lúsina.
„Í dag tekur meðal annars of langan tíma hjá yfirvöldum að heimila aðferðir við meðhöndlun sem leiðir til þess að hlutirnir vinda upp á sig án þess að fyrirtækin geti brugðist við,“ segir Hjetland við iLaks. „Framvegis verða yfirvöld og fyrirtækin að vinna náið saman til að fá reglur um lúsaeftirlit sem virka,“ bætir hann við.
Viss um að koma megi í fyrir endurtekningu
Þá segist Hjetland að Mowi fagni endurskoðun á regluverkinu sem nú sé í gangi og segir móðurfyrirtækið Mowi og dótturfélagið Arctic Fish tilbúin að leggja sitt af mörkum við þá vinnu.
„Við erum þess fullviss að við getum eftirleiðis komist hjá slíkum atburðum með góðu samstarfi fyrirtækjanna og yfirvalda á Íslandi,“ er einnig haft eftir Ola Helge Hjetland á iLaks.no.