Samningur hefur verið undirritaður um sölu Icelandic Group á dótturfyrirtæki sínu, Seachill, til breska matvælafyrirtækisins Hilton Food Group. Kaupverðið nemur 84 milljónum punda eða tæpum tólf milljörðum króna.

Reiknað er með að eigendaskipti félagsins fari fram 7. nóvember eða næstu daga þar í kring.

Í apríl síðastliðnum var greint frá því að Icelandic Group, sem áður hét Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, væri að hefja söluferli á Seachill sem hefur verið leiðandi framleiðandi á kældum fiskafurðum inn á breskan smásölumarkað.

Í tilkynningu frá Icelandic segir að margir hafi sýnt því áhuga að kaupa Seachill, en að loknum kaupunum verður fyrirtækið sjálfstæð eining innan Hilton Food Group með sömu stjórnendum og hingað til.

Hilton hefur til þessa sérhæft sig í kjötafurðum og hefur verið í hröðum vexti, með sex verksmiðjur á sínum vegum í ýmsum Evrópulöndum og selur afurðir sínar til 14 Evrópulanda. Í tilkynningu frá Hilton segir að fyrirtækið ætli sér að nota viðskiptalíkanið sem Seachill hefur starfað eftir í Bretlandi til að setja vörur á markað víða um heim.

Icelandic Group er að öllu leyti í eigu Framtakssjóðs Íslands, sem er fjárfestingarsjóður í eigu sextán lífeyrissjóða, Landsbankans og VÍS. Árið 2015 var ákveðið að Icelandic Group yrði skipt upp í einingar sem seldar yrðu hver í sínu lagi.

[email protected]