Fyrirtækjaráðgjöf Kviku hefur komist að þeirri niðurstöðu að kaupverð HB Granda á öllu hlutafé í Ögurvík sé lægra heldur en markaðsvirði eigna Ögurvíkur. Þó er tekið fram að ráðgjafar bankans geti ekki nema að takmörkuðu leyti metið á sjálfstæðan hátt möguleg samlegð af kaupunum og reiðir hún sig þar á stefnu stjórnenda HB Granda.

Þetta kemur fram í samantekt minnisblaðs sem nú hefur verið birt en á hluthafafundi HB Granda þann 16. október síðastliðinn var það samþykkt að fela Fyrirtækjaráðgjöf Kviku banka það verkefni að meta fyrirhuguð kaup.

„Samandregið er það mat FRK að séu forsendur stjórnenda HB Granda raunhæfar séu þau viðskipti sem hér er fjallað um hagfelld fyrir HB Granda," segir í niðurstöðunum.

Fram kemur í tilkynningu frá stjórn HB Granda að hún geri ekki athugasemdir við minnisblaðið eða niðurstöðurnar.