„Mér hugnast það ekki,“ segir Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, um svæðaskiptingu strandveiða sem Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra leggur til að verði tekin upp á ný.
Svandís hefur sagt fullreynt með afnám svæðaskiptinga í strandveiðum, en Örn er á öðru máli. Árið 2018 var fyrirkomulagi strandveiða breytt þannig að veiðiheimildum yrði ekki skipt niður á svæði eins og áður hafði verið, en í staðinn átti að tryggja öllum 48 veiðidaga á tímabilinu frá maíbyrjun til ágústloka.
„Markmiðin voru þau að auka jöfnuð á milli svæða og að minnka áhættuna við veiðarnar, slökkva á öllu þessu kappi og látum sem voru í kringum þetta. Í upphafi mánaðar blasti jafnvel við að heimilt yrði að róa í fjóra eða fimm daga. Við vildum eyða því, og það hefur tekist.“
Reyndist vel í fyrstu
Hann segir að 48 daga kerfi hafi reynst vel í tvö fyrstu árin.
„Það var nægur afli í því en síðan vantaði afla í kerfið árin 2020 og 2021, og allt stefnir í það aftur núna á þessu ári. Við það myndast ójafnvægi, kerfið nær ekki þeim markmiðum sem það átti að ná.“
Almennt hefur veiðin í sumar verið mjög góð og því hefur lengi legið fyrir að þau 10.000 tonn af þorski sem heimilt er að veiða, auk 1.000 tonna af ufsa og 100 tonna af gullkarfa, muni ekki endast út ágústmánuð. Varla út júlí. Í síðustu viku var ákveðið að bæta 1.074 tonnum við pottinn, en Örn segir engan veginn hægt að treysta því að það dugi til.
„Það fer nú eftir því hvernig fiskast. Um leið og kemur einhver bræla þá hendist þetta niður, en ef tíðin verður eins og hún er búin að vera í maí og júní og fiskeríið óbreytt, þá endist vart mánuðurinn.“
Hann segir áríðandi að eyða þessari óvissu og festa í lög að leyfi til strandveiða gildi í 48 daga, 12 daga í hverjum mánuði eins og fyrirheit voru um þegar kerfinu var breytt.
Sveigjanleikinn
„Ef ráðherra ákveður að leyfilegur heildarafli í þorski fari ekki umfram 209 þúsund tonn á næsta ári eins og Hafró leggur til, þá finnst mér sjálfsagt að láta það fylgja með að innbyggt í stjórn fiskveiða sé kerfi sem gæti skilað aðeins meira eða minna eftir því hversu mikið kemur úr pottunum. Afli gæti aukist eitthvað lítillega eða minnkað eitthvað, en það eigi aldrei nokkurn tímann undir nokkrum kringumstæðum að stöðva veiðarnar á miðjum tíma. Alls ekki.“
Örn segir enga ástæðu til að ætla annað en að strandveiðisjómenn á norðausturhluta landsins yrðu sáttir við 48 daga kerfið, án svæðaskiptingar, svo fremi sem það virki eins og ætlast var til. Veiðin þar er yfirleitt dræm fyrri hluta tímabilsins en tekur við sér þegar líða tekur á sumarið.
„Nú hefur farið saman hjá þeim fiskleysi framan af og slæmt tíðarfar. Það er auðvitað gremjulegt þegar þetta fer saman, en ég er viss um að ef 48 daga kerfið endist alveg út ágúst þá verður hver einasti maður ánægður með það.“