Um 100 manns mættu á Heimsóknardag hjá KAPP Skaganum sem haldinn var í gær í höfuðstöðvum fyrirtækisins að Krókatúni á Akranesi.
Freyr Friðriksson, forstjóri KAPP, og Ólafur Karl Sigurðarson, framkvæmdastjóri KAPP Skagans, tóku á móti gestum og kynntu þeim starfsemina ásamt því að gefa þeim innsýn í fyrstu mánuði rekstursins sem og framtíðaráformin. Síðan var tekinn göngutúr um framleiðslusalinn auk þess sem boðið var upp á léttar veitingar.

Kærkomið fyrir Skagamenn
Gjaldþrot Skagans 3X á síðasta ári var högg fyrir atvinnulíf á Akranesi enda misstu 128 manns vinnuna. Það var því kærkomið fyrir Skagamenn þegar KAPP keypti eignir þrotabúsins í október sl. og úr varð félagið KAPP Skaginn, sem hóf formlega starfsemi 1. nóvember.
,,Við erum mjög ánægð að við séum að leggja af stað aftur í vegferð með öflugu fyrirtæki sem KAPP er. Við höfum miklar væntingar til KAPP Skagans. Þetta er veruleiki sem við vorum ekki endilega að reikna með um mitt sumar í fyrra," segir Haraldur Benediktsson, bæjarstjóri á Akranesi.

Verkefnastaðan góð
,,Vegferð eins og sú sem hér hefur verið hafin getur ekki átt sér stað nema í samvinnu og með stuðningi margra aðila. Því fannst okkar tilvalið að bjóða haghöfum og hagsmunaaðilum í heimsókn til okkar, til þess að kynna fyrir þeim verkefni síðustu mánaða, framtíðarsýn og gefa innsýn inn í reksturinn. Það er gaman að fá svo marga í heimsókn til okkar á þessum góða og fallega febrúardegi." segir Ólafur Karl, framkvæmdarstjóri KAPP Skagans og bætir við að nýja félagið hafi fengið hlýjar móttökur á Akranesi. ,,Verkefnastaða okkar er góð og pantanir líta vel út,. Við finnum einnig mikinn meðbyr úr geiranum og hér í heimabyggð félagsins."
