Á næstu dögum verður gerð könnun á viðhorfi íbúa Múlaþings 18 ára og eldri til komu skemmtiferðaskipa í hafnir í Múlaþingi. Þetta kemur fram á vef sveitarfélagsins.

„Tilgangur könnunarinnar er að komast að viðhorfi íbúa almennt, hvað sé vel gert og hvað megi betur fara. Gert er ráð fyrir að greina megi niðurstöður meðal annars út frá kyni, aldri og búsetu,“ segir á mulathing.is.

Hafnir í Múlaþingi eru á Seyðisfirði, Djúpavogi og Bakkagerði í Borgarfirði eystri.

„Áætlað er að niðurstöður liggi fyrir í lok árs og verða þær þá kynntar opinberlega,“ segir áfram á mulathing.is. Markmiðið sé að ná 360 svörum til að fá marktækar niðurstöður. „Könnunin gefur íbúum tækifæri til að koma skoðunum sínum á framfæri og eru þeir hvattir til að taka þátt.“