Kanadíski togarinn Saputi sem var á grálúðuveiðum í Davíðssundi milli Grænlands og Kanada rakst á ísjaka síðastliðinn sunnudag sem varð til þess að gat kom á skrokkinn. Áhöfnina, 30 manns, sakaði ekki og skipið er ekki talið í neinni hættu.
Ákveðið var að sigla skipinu til hafnar í Nuuk á Grænlandi. Kanadíska strandgæslan flaug yfir skipið og kastaði niður fimm dælum. MYNDBAND af því má sjá á færeyska vefnum fiskur.fo. Ennfremur var ákveðið að senda skip frá dönsku strandgæslunni til móts við togarann til öryggis.
Því má bæta við að togarinn var eitt sinn færeyskur og hét þá Ango með heimahöfn í Vági.