Kalt vatn streymir nú Grindavík og boðar gott fyrir íbúana og fyrirtækin á staðnum

„Það er til mikill bóta,“ segir Gunnar Tómasson, framkvæmdastjóri útgerðarfyrirtækisins Þorbjarnar.

Fyrir var Þorbjörn með vatn úr eigin borholu. Gunnar segir kalda vatnið sem nú hefur verið tengt við bæinn engu að síður hjálpa við vinnsluna hjá fyrirtækinu.

„En aðal málið er að nú kemur neysluvatn á allar verbúðirnar hjá okkur og kaffistofur og starfsmannarými innan fyrirtækisins, skrifstofurnar og um allt. Þetta er áfangi,“ segir Gunnar. Nú bíði menn bara eftir að fá heita vatnið líka

Heita vatnið næst á dagskrá

Nóg af köldu vatni. FF Mynd/Eva Björk
Nóg af köldu vatni. FF Mynd/Eva Björk

„Það er eitthvað aðeins lengra í það en ég held að það sé samt alveg á næstu dögum. Þeir eru að leysa þetta á svipaðan hátt og þeir leystu Njarðvíkurlögnina, hinu megin við Þorbjörninn,“ segir Gunnar og vísar þá að sjálfsögðu í fjallið sem stendur á milli Grindavíkur og Svartsengis.

„Það breytir öllu með viðveruna í bænum svo það er hægt að vera hér lengur. Líka ef það kólnar aftur og veður versnar munar það öllu. Húsnæði hjá okkur var í hættu vegna frostskemmda og þess háttar,“ bendir Gunnar á.

Vonast eftir vertíðarstemningu fljótlega

„Við höfum verið undanfarnar vikur að pakka og ganga frá saltfiski til útflutnings. Núna bætist það við að tökum fisk til vinnslu og skipin hjá okkur fara að landa í Grindavík,“ segir Gunnar.

Fyrsta skipið sem muni landa segir Gunnar vera línuskipið Valdimar GK sem von sé á til Grindavíkur í fyrramálið með þorsk til vinnslu. Það er því að komast bragur á bæinn að nýju.

„Það verður vonandi fljótlega komin vertíðarstemning í Grindavík,“ segir Gunnar sem kveður um fjörutíu manns á vegum Þorbjarnar að störfum í bænum núna. „Það fjölgar kannski um tuttugu í viðbót þegar allt fer í gang.“

Flestir hugsa sér til hreyfings

Grindavík í dag. FF Mynd/Eva Björk
Grindavík í dag. FF Mynd/Eva Björk

Enginn gistir eins og er í verbúð Þorbjarnar en með vatninu segir Gunnar skapast möguleika á að dvelja þar. „Þá getur fólk gist þar og farið til vinnu við hliðina.“

Gunnar segir aðspurður að flest önnur fyrirtæki, þar með talin útgerðar- og fiskvinnslufyrirtæki, í Grindavík séu farin að hugsa sér til hreyfings með að hefja starfsemi að nýju.

Veðurstofan telur líkur á kvikuhlaupi og jafnvel gosi í næstu viku. Yfir öllu vofir því áfram náttúran með sína jarðskjálfta- og eldgosahættu.

„Já, hún er að ógna okkur einhvers staðar. Við verðum bara að lifa með því og förum eftir þeim ráðum sem við fáum um forða okkur ef hún fer að bæra á sér aftur,“ segir Gunnar Tómasson í Þorbirni.

Auk þess sem kalda vatnið er komið er Grindavíkurvegur nú opinn. Vegfarendur eru þó beðnir að fara varlega á þeim hluta þar sem vegurinn liggur um nýja hraunið.