„Það er nú þannig með tímans hjól að það veltur áfram en ekki aftur á bak. En hvert, það er öllu snúnara að svara því.“

Þetta segir Ólafur Marteinsson, framkvæmdastjóri Ramma hf. á Siglufirði og stjórnarformaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), spurður hvernig hann myndi svara spurningunni sem er yfirskrift ársfundar SFS. Ársfundurinn verður haldinn í dag og yfirskriftin er Hvert liggur straumurinn?

„Við munum þó reyna að velta því upp á þessum fundi hvað hægt er að gera úr þeim verðmætum sem verða til í sjávarútvegi og fiskeldi á Íslandi. Að okkar mati eru möguleikarnir ágætlega nýttir en það er hægt að gera mun betur. Til þess þarf þó að marka ákveðna stefnu sem hægt er að treysta á og fylgja. Fyrst af öllu þarf að setja sér markmið og varða leiðina, þangað á straumurinn að liggja.“

Þróunin í íslenskum sjávarútvegi hefur verið hröð á síðustu árum, miklar fjárfestingar og linnulausar tækniframfarir. Ólafur er spurður hvernig hann sér framhaldið á þeirri þróun.

„Það er alveg augljóst að samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja á alþjóðlegum markaði mun byggjast á því að fjárfesta í nýjustu tækni. Þannig höfum við tryggt stöðu okkar, en hafa verður í huga að um 98% af íslensku sjávarfangi eru seld á erlendum markaði. Fjárfestingar í nýjustu tækni munu halda áfram og svo kölluð fjórða iðnbylting hefur fyrir löngu haldið innreið sína í íslenskan sjávarútveg.“

Tæknin gerir aðrar kröfur

Hann segir að starfsfólki muni hugsanlega fækka eitthvað, „en ný tækni gerir kröfu um annars konar kunnáttu og mörg erfið störf eru nú unnin af vélum og tækjum.“

En hvað með þróun starfa í sjávarútvegi, hvað varðar t.d. byggðaþróun og menntun starfsfólks?

„Það er vert að hafa í huga að flutningur fólks frá minni stöðum til hinna stærri er þróun sem á sér stað um allan heim. Þegar rætt er um byggðaþróun er rétt að bend á, að staðir sem áður áttu undir högg að sækja hafa sumir hverjir náð vopnum sínum á ný. Ég nefni Austfirði og Vestfirði í því samhengi, þar sem fiskeldi hefur haft afar góð samfélagsleg áhrif og þar fjölgar fólki. Nýlega auglýsti til dæmis Arnarlax eftir rúmlega þrjátíu starfsmönnum á Vestfjörðum. Með nýrri tækni þarf menntað starfsfólk og því mun því fjölga.“

Ímyndin oft rædd

Hann er spurður út í ímynd íslensks sjávarútvegs meðal þjóðarinnar. Hvort SFS hafi einhver áform um að bæta hana, til dæmis með áherslubreytingum í sjávarútvegi?

Ólafur Marteinsson
Ólafur Marteinsson

  • Ólafur Marteinsson, stjórnarformaður SFS og framkvæmdastjóri Ramma hf. Aðsend mynd

„Þetta er atriði sem við ræðum oft á okkar vettvangi og auðvitað væri betra ef meiri friður skapaðist um greinina. Það sem við höfum haft að leiðarljósi í samtökunum er að setja fram greinargóðar upplýsingar um mikilvægi öflugs sjávarútvegs fyrir Ísland.“

Hann segir að vilji menn umbylta kerfinu þá þurfi viðkomandi að gera grein fyrir því hvernig það á áð vera.

„Það er ekki fullnægjandi að segja bara að breyta þurfi kerfinu breytinganna vegna. Ef óánægjan snýst um upphæð veiðigjalds þá skulum við ræða það sérstaklega. En að mínu viti er afar óheppilegt að greinin þurfi sífellt að búa við upphrópanir um að umbylta þurfi kerfinu, allt eftir því hverjir sitja á Alþingi.“

Kerfið virkar vel

Spurður um áhrif stríðsins í Úkraínu, segir hann ástandið þar að sjálfsögðu hafa sett strik í reikninginn hjá sumum fyrirtækjum.

„Mismikið þó. Þegar COVID-19 reið yfir þurftu fyrirtæki að aðlaga sig að nýjum veruleika. Og það gerðu þau mjög vel. Þá koma sér ákaflega vel það sem ég nefndi áðan að veiðar, vinnsla og sala eru oft á einni hendi. Og fyrirkomulagið sem við búum við, fiskveiðistjórnunarkerfið, virka mjög vel þegar óvænt atvik verða. Það sama er að gerast núna. Það þarf að bregðast við breyttum aðstæðum og fyrirtækin munu gera það.“