Frystitogarinn Höfrungur III AK er nú á veiðum á Vestfjarðamiðum. Skipstjórinn, Ævar Jóhannsson, segir í samtali á vef HB Granda að veiðin í túrnum hafi verið kaflaskipt. Suma dagana hafi fengist góður afli en aðra daga hafi aflabrögðin verið treg.

Í upphafi veiðiferðarinnar var reynt við ufsa á Halanum.

,,Ufsaaflinn var ekkert sérstakur en þó má segja að þetta hafi verið sæmilegt nudd, eins og við orðum það. Karfaveiði var hins vegar ágæt og eftir að við færðum okkur yfir á Hampiðjutorgið hef ég heyrt af því að skip hafi verið að fá mjög góðan karfaafla á Halanum. Um þorskveiðina þarf ekki að fjölyrða. Það voru mjög margir togarar á þorskveiðum á svæðinu og aflabrögðin voru góð. Við reynum hins vegar að forðast þorskinn og hið sama gegnir um ýsuna. Það virðist vera nóg af ýsu og við fengum a.m.k. mjög góðan ýsuafla hér fyrir vestan í ágústmánuði þegar við máttum sækja í ýsuna. Nú er heildarúthlutunin þannig að allir forðast beina sókn í ýsu og ég get nefnt það sem dæmi að sennilega erum við komnir með um sjö tonn af ýsu sem meðafla í veiðiferðinni. Þrátt fyrir það höfum við reynt að forðast helstu staðina þar sem góðrar ýsuveiði er von.“

Að sögn Ævars hefur veiðin á Hampiðjutorginu aðallega snúist um veiðar á karfa, gulllaxi og grálúðu.