Jón Kjartansson SU var í gær kominn með um 1.700 tonn af kolmunna sem fékkst í færeyskri lögsögu og bjóst Guðmundur Ingi Guðmundsson 1. stýrimaður við því að það tækist að fylla skipið og halda áleiðis til Vestmannaeyja í dag. Skipið ber 2.300-2.400 tonn.
Huginn ehf. leigir Jón Kjartansson af Eskju hf. og hleypur þetta gamalkunna aflaskip í skarðið fyrir Huginn VE sem nú er verið að breyta í Póllandi. Fyrsta kastið var 29. apríl og voru sem fyrr segir komin 1.700 tonn í lestina eftir fjóra daga á miðunum.
„Við erum að tileinka okkur nýjar aðferðir á Jóni Kjartanssyni enda nokkur munur á milli skipa. Við erum að komast á lagið með þetta og ágætur gangur í þessu,“ segir Guðmundur Ingi.
Hann segir kolmunnann magran á þessum árstíma en þó sé hann ívið stærri en undanfarin ár. Um fimmtán skip eru á kolmunnaveiðum á svæðinu og auk þess skip á leið til löndunar og á miðin. Þarna eru íslensk skip, talsverður fjöldi rússneskra skipa auk Færeyinganna.
Huginn VE lengdur
Mikið hefur verið af hámeri á miðunum sem hefur tafið fyrir veiðunum hjá mörgum skipanna, þar á meðal Jóni Kjartanssyni. Hámerin hefur verið að leggjast fyrir dælur og tafið þannig fyrir því að hægt hafi verið að dæla kolmunnanum um borð. Á öðrum skipum hafa skiljur skemmst af þessum sökum.
„Við höfum séð svona kvikindi eitt og eitt á stangli en ekki miðað við það sem við heyrum af núna. Hámerin getur valdið talsverðum töfum og erfiðleikum.“
Af Huginn VE er það að frétta að verið er að taka hann upp í dokk og framundan er lenging á honum. Áætluð verklok eru um miðjan ágúst.
„Það er tilhlökkun að fá hann aftur en við unum okkur vel hér á Jóni Kjartanssyni líka. Það mikil saga í þessum bát og líklega sá sem hefur veitt flest kíló upp úr sjó af þeim íslensku skipum sem eru ennþá í drift. Hann er að verða 40 ára á þessu ári og þetta hefur verið mikið framúrstefnuskip á sínum tíma.“
30 tíma sigling er frá miðunum til Eyja og fjarlægðin er um 430 sjómílur.