Síkvik norðurljósadýrðin lék um kvöldhimininn þegar Guðlaugur J. Albertsson smellti mynd af Jóni Júlí BA 157 fyrir nokkrum vikum. Myndin prýðir forsíðu jólablaðs Fiskifrétta, enda er óneitanlega ákveðin jólastemmning yfir henni.

Báturinn hefur legið lengi ónotaður við bryggju á Tálknafirði, en átti sér fyrrum merka sögu eins og margir gömlu eikarbátarnir. Hann er smíðaður árið 1955 á Fáskrúðsfirði og var lengi gerður út á dragnótaveiðar frá Tálknafirði.

„Það er synd hvað maður sinnir honum … ekkert eiginlega,“ sagði Þór Magnússon þegar Fiskifréttir slógu á þráðinn til hans. Hann á ekki von á að báturinn eigi sér viðreisnar von úr þessu, enda dýrt að halda honum við hvað þá að gera hann upp.

Ægileg sorg

„Það eru til nokkrir svona trébátar og hann er sennilega búinn greyið. Þetta kostar svo mikla peninga að maður á þá ekki. En maður átti mjög góðar minningar þarna.“

Guðmundur Magnússon og María Júlía, sem nú bíður þess að komast frá Ísafirði í slipp á Akureyri. FF MYND/Grímur Bjarnason
Guðmundur Magnússon og María Júlía, sem nú bíður þess að komast frá Ísafirði í slipp á Akureyri. FF MYND/Grímur Bjarnason

Þórsbergið, útgerð þeirra bræðra, Þórs og Guðmundar Magnússona, gerði á sínum tíma út fleiri báta, þar á meðal hina sögufrægu Maríu Júlíu, fyrstu björgunarskútu Vestfirðinga sem einnig var nýtt sem rannsóknarskip og landhelgisgæsluskip og á endanum til veiða.

„Við áttum Maríu Júlíu lengi, eða pabbi, og það var ægileg sorg hjá fjölskyldunni þegar hún fór,“ segir Þór.

Tvístraðist

Árið 1988 var rætt við þá bræður í Fiskifréttum. Þór var þá skipstjóri á Jóni Júlí en Guðmundur á Maríu Júlíu. Dragnótaveiðar höfðu þá gengið svo vel að flestir bátarnir voru búnir með kvótann. Skipin voru þá á veiðum á Patreksfjarðarflóa, aðeins steinsnar frá Tálknafirði.

„Þetta hefur tvístrast svolítið. Fjölskyldan fór hingað og þangað svolítið. Ég fór út úr þessu. Þórsberg sem átti Jón Júlí er að gera út Indriða Kristins. “

Þór Magnússon við Jón Júlí meðan báturinn var enn í fullu fjöri. FF MYND/Grímur Bjarnason
Þór Magnússon við Jón Júlí meðan báturinn var enn í fullu fjöri. FF MYND/Grímur Bjarnason

Þór er núna í forsvari fyrir fiskmarkaðinn á Tálknafirði, en vinnur annars við laxeldi á veturna og á strandveiðibát á sumrin.

„Það er nóg að gera. Við erum að reyna að halda þessum markaði lifandi allt árið til að geta þjónustað strandveiðina um sumarið.“