Japanir eru þekktir fyrir mikla fiskneyslu en samt hefur dregið úr áhuga þeirra á sjávarfangi, hvort sem um er að ræða unglinga eða eldri borgara, að því er fram kemur á vef Wall Street Journal.
Fiskneysla í Japan hefur dregist saman jafnt og þétt undanfarin ár. Árið 2006 gerðist það í fyrsta sinn að kjötneysla á mann varð meiri en fiskneysla. Meðalheimilið í Japan eyðir 23% lægri upphæð í fiskkaup en var árið 2000. Árið 2009 varði meðalheimilið 74 dollurum (9.250 ísl. kr.) í að kaupa fisk.
Hagsmunaaðilar í Japan hafa af þessu miklar áhyggjur og reyna allt hvað þeir geta til að snúa þróuninni við. Meðal annars hafa þeir fengið þekkta rokkhljómsveit til að semja og syngja lofsöng um fisk sem leikinn er í öllum helstu stórverslunum landsins.