Sala hjá Iceland Sea­food International jókst um 6,5 prósent á þriðja árs­fjórðungi og nam 102 milljónum evra sem er jafnvirði um 14,8 milljarða króna.

Þetta kemur fram á vef Viðskiptablaðsins þar sem einnig segir frá því að aðlöguð af­koma Iceland Sea­food International fyrir skatta hafi verið jákvæð um 2,5 milljónir evra á fyrstu níu mánuðum ársins saman­borið við 1,9 milljóna evra tap á sama tíma­bili í fyrra.

„Nettótap sam­stæðunnar á fyrstu níu mánuðum ársins nam 1,5 milljónum sem er tölu­verður viðsnúningur frá fyrra ári er félagið tapaði 20,7 milljónum evra. Sala félagsins á fyrstu níu mánuðum ársins nam 314 milljónum evra sem er um 1,3 prósent aukning milli ára,“ segir Viðskiptablaðið og vitnar síðan til orða Ægis Páls Friðbertssonar, forstjóra Iceland Sea­food International, í uppgjörinu:

Aukin eftirspurn vegna banns á Rússa

„Fyrstu níu mánuðir ársins 2024 hafa stað­fest að við erum á réttri leið. Helstu lykilmæli­kvarðar hafa farið í rétta átt. Þetta er jákvæð þróun við krefjandi markaðsaðstæður, svo sem hátt vaxta­stig, verðbólgu, hátt hráefnis­verð og lægri eftir­spurn. Við sjáum bata­merki á mörkuðum, sér­stak­lega í Evrópu, og aukna eftir­spurn í Bandaríkjunum, meðal annars vegna banns á inn­flutningi á rúss­neskum fiski. Við væntum þess að þorsk­verð haldist hátt á næstu árum vegna kvóta­skerðingar í Barents­hafi. Laxa­verð var hátt fyrri hluta ársins en hefur verið stöðugt síðan og gæti hækkað undir lok ársins,” segir Ægir Páll Friðberts­son.

Þá segir Viðskiptablaðið að heildar­eignir félagsins í lok tíma­bilsins hafi verið bók­færðar á 239,1 milljón evra sem sé lækkun um 15,7 milljónir evra frá fyrra ári. Eigin­fjár­hlut­fall hafi verið 29,9 prósent. Sam­kvæmt af­komu­spá félagsins verði aðlöguð af­koma þess fyrir skatta á árinu á bilinu 5 til 7 milljónir evra.