Margir bátar heita áhugaverðum nöfnum og er uppruni þeirra með ýmsum hætti. Bátar eru gjarnan nefndir í höfuðið á mönnum og í seinni tíð hafa nöfn frægra manna úti í heim verið vinsæl. Fiskifréttir könnuðu söguna á bak við nokkur þessara nafna og afraksturinn er að finna í sjómannadagsblaði Fiskifrétta sem er nýkomið út. Hér á eftir fer sagan á bak við bátsnafnið Jagger ÍS.
,,Ég hef alltaf verið aðdáandi Rolling Stones og Jagger er minn maður,“ segir Guðmundur Óli Kristinsson, eigandi bátsins. ,,ÍS-númer bátsins er 43 og Jagger er fæddur 1943 og þegar var verið að vinna í bátnum var alltaf sagt að það væri verið að vinna í Jagger og það skrifað á vinnuskýrslunnar. Nafnið festist því við bátinn áður en ég var búinn að ákveða hvað hann átti að heita og satt best að segja var það mér ekkert á móti skapi.
Ég hitti Mick Jagger þegar hann kom til Ísafjarðar á sínum tíma. Ég var ekki búinn að eignast bátinn á þeim tíma en ég fór og heimsótti hann út í snekkjuna sem hann kom á. Auk þess hafði ég verið á tónleikum með Stones hálfum mánuði áður. Jagger tók vel á móti mér og talaði við alla sem gáfu sig á tal við hann og var algerlega laus við alla stjörnustæla.“
Sjá söguna á bak við nöfn fleiri báta í nýjustu Fiskfréttum.