Um þessar mundir er iTUB að innleiða nýtt kerfi sem heldur utan um kerastýringu fyrirtækisins, bæði hér á landi og í Evrópu. Nýja kerfið, sem nefnist MiND, er þróað fyrir iTUB til að bæta birgðastjórnun og auka skilvirkni í leigukerfinu.

Hilmir Svavarsson, framkvæmdastjóri iTUB, segir að hugbúnaðurinn muni auka nýtingu á leigukerum, sem muni hafa jákvæð áhrif fyrir viðskiptavini.

„Aukið nýtingarhlutfall kera þýðir að það verða fleiri laus ker í kerfinu fyrir viðskiptavini okkar,“ segir Hilmir.

Aukin skilvirkni og minni sóun

Í dag er iTUB með um 55 þúsund 460 lítra leiguker í notkun í Evrópu.

„Við erum enn að fjölga kerum í leigukerfinu þar sem við finnum fyrir aukinni eftirspurn í Evrópu, m.a. í Noregi þar sem fleiri sjávarútvegsfyrirtæki hafa fært sig yfir í 460 lítra endurvinnanleg ker,“ segir Hilmir.

„Þar sem við deilum kerum meðal viðskiptavina um alla Evrópu þá skiptir miklu máli að auka nýtingarhlutfall kera okkar með innleiðingu á þessu nýja kerfi. Hugbúnaðurinn mun hjálpa okkur að halda enn betur utan um keraflotann og þá tapast færri ker. Þá mun MiND auðvelda okkur að halda utan um skráningar á viðgerðum sem við framkvæmum á kerunum, sem er mikilvægur öryggisþáttur.”

Hilmir Svavarsson, framkvæmdastjóri iTUB.
Hilmir Svavarsson, framkvæmdastjóri iTUB.

Innbyggður hvati sem umbunar viðskiptavinum

Kerfið virkar m.a. þannig að sá sem sendir ker skráir það í hugbúnaðinn og móttakandi samþykkir. Með því að tæma og skila kerinu fljótt á næsta skilastað myndast sparnaður í kerfinu. Viðskiptavinur borgar minna og kerin standa ekki auð.

„Fram að þessu hafa ker stundum staðið tóm svo dögum skiptir eftir notkun og það dregur úr skilvirkni í öllu kerfinu,“ segir Hilmir.

Hugbúnaðurinn er hannaður til að hvetja notendur til að skila kerum hratt og örugglega og bætir Hilmir við að þá þurfi notandi ekki að borga auka daggjald fyrir ker sem er ekki í notkun. Það er hagur allra í virðiskeðjunni að kerin komist sem allra fyrst aftur í notkun.

MiND-kerfið fyrir Evrópu.
MiND-kerfið fyrir Evrópu.

MiND-kerfið eykur sjálfbærni

Innleiðingin á MiND-­kerfinu mun auka nýtingarhlutfall iTUB-kera.

„Þetta þýðir að við þurfum færri ker í kerfið okkar, sem dregur úr hrávöru sem þyrfti annars í fleiri ker. Öll okkar ker eru nú í hringrásarhagkerfi þar sem þeim er deilt meðal viðskiptavina okkar um alla Evrópu. Þegar kerin eru úreld, sem oftast eftir 12-15 ár, eru þau endurnýtt að fullu. MiND kerfið hjálpar okkur að draga úr sóun og lækka kolefnissporið. Að auki þá hjálpar kerfið okkur að stýra betur flutningi á kerum okkar sem mun draga úr kostnaði og kolefnisspori, bæði hérlendis og í Evrópu,“ segir Hilmir.