Á fundi strandríkja um stjórnun veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum, sem lauk í Lundúnum í dag, náðist samkomulag um að heildarafli verði 833.000 tonn árið 2012. Hlutur Íslands verður 120.868 tonn.

Niðurstaða strandríkjanna er í fullu samræmi við vísindaráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) og þá langtíma stjórnunaráætlun sem sett hefur verið. Staða stofnsins er góð og stofninn hefur verið nýttur á sjálfbæran hátt undanfarin ár. Árgangar undanfarinna sex ára hafa þó verið minni en á tímabilinu 1998 til 2004 þegar sterkir árgangar komu inn í stofninn.