„Það hefur verið dagamunur á þessu, stundum verið fínasta veiði en á milli hafa komið rólegri tímabil,“ segir Ásgrímur Halldórsson, skipstjóri á Jónu Eðvalds SF, uppsjávarskipi Skinneyjar-Þinganess. „Við höfum verið á þessari íslensku síld hérna vestan við land, djúpt í Kolluálum og við Wilson sem kallað er hérna suðvestur af Vestfjörðum. Þetta er alveg þokkalegasta síld, meðalvigtin hjá okkur er svona 280-90 gramma síld.“

Hann segir tíðarfarið sömuleiðs hafa verið ágætt.

„Meðan tíðarfarið er í lagi þá mjatlast þetta hjá okkur, en það er voða fljótt að bræla hérna. Það hafa samt ekkert komið margir klukkutímar sem hafa verið stopp. Þetta er bara íslenskt haust. Þokkalegasta tíðarfar.“

Stemmningin þokkaleg

Ásgrímur segir stemmninguna um borð alveg þokkalega.

„Þegar vel fiskast þá eru allir sáttir en svo þegar ekkert fiskast þá verða menn þungir. En þetta hefur verið bara svona ágætis fiskerí myndi ég segja, ekkert mok samt. Þetta er bara svona úr og í eins og alltaf í þessu fiskeríi.“

Ásgrímur segir Jónu Eðvalds hafa verið að landa svona 850 til 950 tonnum eftir hvern túr. Siglt er til Hornafjarðar og síðan aftur á miðin.

Samkvæmt tölum frá Fiskistofu er nú þegar búið að veiða nærri 40.000 tonn upp í kvóta ársins, en heildarkvóti vertíðarinnar er um 74 þúsund tonn. Á síðasta fiskveiðiári veiddust um 70 þúsund tonn af íslensku sumargotssíldinni, þar af 52 þúsund vestan við landið og 18 þúsund austan við landið.

Sumir langt komnir með kvótann

„Menn hafa verið búnir með kvótann yfirleitt um miðjan desember eða eitthvað svoleiðis. Einhverjir eru reyndar búnir, eða langt komnir. Hann var líka aðeins skertur í fyrra.“

Síldarvinnslan sagði frá því á þriðjudag að Beitir NK hafi komið til Neskaupstaðar með um 1.100 tonn af síld sem fékkst austur af landinu. Meirihluti aflans var norsk-íslensk síld en nokkuð var einnig af íslenskri sumargotssíld. Tómas Kárason skipstjóri sagði Beiti hafa verið eina íslenska skipið að veiðum á þeim slóðum þá, en einnig voru nokkrir Færeyingar að veiðum.

„Það voru stórar og fínar lóðningar þar sem við vorum í kantinum á Norðfjarðardýpinu en það er eins og síldin sé á leiðinni út af kantinum og fara að strauja austur í haf. Maður veit þó aldrei fullkomlega upp á hverju hún tekur,“ hefur Síldarvinnslan eftir Tómasi.

Ásgrímur segir síðan að þegar síldveiðum lýkur fari menn að huga að loðnuvertíð, en einhver bið verði þó í hana.

„Það er svo lítill loðnukvóti að ég hef nú ekki trú á því að við byrjum fyrr en í febrúar, en ég ímynda mér að það verði kannski einhver loðnuleit í janúar. Einhver skip fara í það alla vega.“