Síldarvinnslan hf. í Neskaupstað hefur tekið á móti 8.000 tonnum af íslenskri síld fram að þessu. Síldin er fryst og það sem flokkast frá fer til bræðslu auk afskurðar.
Á heimasíðu fyrirtækisins er bent á hve miklu máli samstarf Hafrannsóknarstofnunar og útgerða við rannsóknir og stofnmat hafi skipt á þessari vertíð.
,,Ef sjávarútvegsráðherra hefði ekki úthlutað rannsóknarkvóta í upphafi er óvíst að við værum að vinna nokkra síld. Þá hefðum við farið á mis við mikil verðmæti,” segir Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar á heimasíðunni. Ennfremur segir: ,,Síldarvinnslan hf. hefur skipt á heimildum við Samherja hf. og Gjögur ehf., þannig að vinnsluskip þeirra vinna norsk-íslensku síldina okkar við Noreg og Síldarvinnslan mun í staðinn veiða og vinna heimildir þeirra af heimasíldinni. Með þessum skiptum er verið að hámarka virði aflaheimildanna bæði í norsk-íslensku síldinni og heimasíldinni.”
Hjá Síldarvinnslunni hf. starfa 44 manns við frystinguna og 18 manns við bræðsluna og á skipunum eru 26 störf, auk starfa í utanumhaldi og viðhaldi.
Sjá nánar á vef SVN, HÉR