Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja hf., heldur því fram að íslensk útgerð og fiskvinnsla hafi skilað skilað meiru í opinber gjöld til íslensks samfélags vegna makrílveiða en færeyski ríkiskassinn fékk með því að leigja makrílkvóta til erlends verksmiðjuskips, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum.
Þorsteinn Már Baldvinsson fluttir erindi á Viðskiptaþingi í síðustu viku þar sem hann fjallaði meðal annars um opinber gjöld útgerðarinnar vegna veiða á makríl.
Í opinberri umræðu hefur verið fullyrt að hefðu Íslendingar farið sömu leið og Færeyingar, sem leigðu út hluta makrílkvótans, hefði ríkissjóður fengið rúmlega 7,5 milljarða króna fyrir 155 þúsund tonna heildarkvóta sem gefinn var hér út á síðasta ári.
Færeyingar leigðu út um 20 þúsund tonn af um 150 þúsund tonna makrílkvóta. Þar af leigði erlenda verksmiðjuskipið Lafayette til sín 16 þúsund tonn. Eigendur Lafayette greiddu 3,35 danskar krónur á kílóið í leigugjald fyrir makrílkvótann, um 70 krónur íslenskar.
Þorsteinn sýndi fram á að vegna veiða Vilhelms Þorsteinssonar EA á makríl á síðasta ári hefðu verið greiddar 580 milljónir króna í opinber gjöld sem væri 58 krónur á hvert kíló af makríl sem skipið veiddi. Til viðbótar mætti áætla að ýmsir þjónustuaðilar hefðu greitt í opinber gjöld sem samsvaraði um 42 krónur á kílóið.
,,Færeyska dauðafærið skilaði um 70 krónum íslenskum á kílóið en íslenska „klúðrið“ gaf um 100 krónur,“ sagði Þorsteinn.
Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.