Matís og Sjávarútvegsskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna taka þátt í FarFish-verkefninu en það er rannsóknaverkefni, sem stutt er af H2020 rammaáætlun um rannsóknir og þróun í Evrópu. Verkefninu er ætlað að afla frekari þekkingar á veiðum Evrópuflotans á fjarlægum hafsvæðum í suður-Atlantshafi og Indlandshafi.

Íslendingar eru í forystu fyrir þessu verkefni. Vinnunni er stjórnað af Matís.

Jónas Rúnar Viðarsson hjá Matís er verkefnastjóri FarFish, en hann hefur tekið þátt í fjölda rannsóknarverkefna, sem fjármögnuð hafa verið af rammaáætlunum Evrópu um rannsóknir og þróun, er fjalla um fiskveiðar og fiskveiðistjórnun. FarFish verkefnið er þó af töluvert meiri pólitískum toga en fyrri verkefni sem hann hefur komið að, þar sem um mikla hagsmuni er að ræða og veiðarnar eru alls ekki óumdeildar. „Maður finnur alveg að þetta verkefni er töluvert öðruvísi en önnur Evrópuverkefni sem við höfum tekið þátt í,“ segir Jónas. „Í öðrum verkefnum hefur það aðallega verið vísindasamfélagið og einstaka ráðamenn sem sýnt hafa áhuga á því sem við erum að gera, en nú eru beinharðir hagsmunir undirliggjandi og þrýstingur frá hagsmunaaðilum hefur því verið nokkuð áberandi.“

Hagsmunir í húfi
FarFish verkefninu var formlega hrundið af stað á fundi í hafnarborginni Vigo á Spáni síðasta sumar. Það sást til dæmis strax á þeim fundi að hagsmunaaðilar innan evrópska flotans fylgjast vel með verkefninu. Sjávarútvegsráðherra Galisíufylkis flutti opnunarræðu fundarins og lagði hún áherslu á mikilvægi veiðanna fyrir spænskar útgerðir og að tryggja þurfi að hagsmuna þeirra sé gætt.

„Auðvitað skilur maður þetta alveg,“ segir Jónas. „Þetta eru stjórnmálamenn sem eru að hugsa um störfin í sínu kjördæmi. En það sem við erum að gera er að fá menn til að horfa frekar á stóru myndina. Ef við gerum þetta vel þá verður það til þess að allir græða þegar til lengri tíma er litið.“

Samið um aðgang
Jónas greinir frá því að 21 prósent af heildarafla fiskveiðiflota Evrópusambandsins sé veiddur utan evrópskra hafsvæða. Af þessum 21 prósentum eru 13 prósent aflans fengin á alþjóðlegum hafsvæðum þar sem engin eða mjög takmörkuð fiskveiðistjórnun er fyrir hendi, en átta prósent innan fiskveiðilögsögu strandríkja sem Evrópusambandið hefur samið um aðgang að.

„Það eru mismunandi samningar í gangi“ segir Jónas, „en þeir samningar sem helst verður litið til í FarFish verkefninu eru svokallaðir SFPA samningar (e. Sustainable Fisheries Partnership Agreements) þar sem einstök ríki hafa gert samstarfssamninga við Evrópusambandið um aðgang fyrir evrópska flotann. Þessir samningar fela í sér að fiskveiðifloti ESB fær aðgang að miðunum upp að vissu marki, gegn greiðslum sem meðal annars á að nota til að byggja upp innviði og eftirlit með veiðunum.

Umdeildir samningar
„Sumir þessara samninga hafa lengi verið umdeildir,“ segir Jónas. „Þeir snúast um veiðar úr stofnum sem heimamenn eru ekki að nýta sér að fullu leyti. Þess vegna hafa þeir svigrúm til að veita öðrum aðgang að þessari auðlind. En málið er að í sumum tilfellum er þekking á stöðu stofnanna bara ekki nægilega áreiðanleg og þar af leiðandi er ekki hægt að segja til um hve stór þessi umframauðlind er, sem Evrópuflotinn á að fá aðgang að.“

„Hugmyndin er góð en hún er kannski ekki alltaf að virka sem skyldi,“ segir Mary Frances Davis hjá Sjávarútvegsskólanum.

Jónas segir samt að erfitt sé að eiga við þær aðstæður sem þarna ríkja.

„Við hérna á Íslandi erum meira að segja í vandræðum með að allt sé tilkynnt og rétt skráð. Þú getur þá rétt ímyndað þér hvernig það er á þessum svæðum þar sem í raun og veru þarf að treyst á að útgerðir sendi inn rafrænar afladagbækur um það hve mikið er veitt.

Evrópusambandið er með reglugerðir í gangi sem krefjast þess að menn hafi ákveðnar skráningar og upplýsingar, en þegar þú ert að veiða í mörg þúsund mílna fjarlægð og aflanum er hvorki landað í Evrópu né hjá því strandríki þar sem veiðarnar fara fram, þá er mjög erfitt að fylgjast með þessu.“

Vilja standa sig
„En það sem þetta verkefni gengur út á er að reyna að auka þekkinguna þannig að í raun og veru geti allir sem að þessu koma gert betur í að áætla stofnstærðir og veiðiþol, bæta skráningu og eftirlit, auk þess sem tækifæri skapist til að auka verðmæti aflans, til hagsbóta fyrir alla hagaðila. Mikilvægur hluti af þessu er að fá útgerðirnar í lið með okkur þannig að þær sjái sér hag í að taka á sig aukna ábyrgð. Evrópuflotinn vill sýna að þeir séu að gera hlutina eins og best verður á kosið.“

FarFish-verkefnið er til fjögurra ára og enn skammt á veg komið. Fyrsti fundur var haldinn í Vigo á Spáni í júní á síðasta ári.

„Það sem við vonumst til að komi út úr verkefninu er aukin þekking á stofnunum, veiðunum og virðiskeðjunum sem um ræðir. Upplýsingarnar sem úr verkefninu koma verða gerðar aðgengilegar og nýttar til að þróa tól til að bæta ákvarðanatöku við stjórn veiðanna. Mjög oft er verið að nota þekkt stofnstærðarlíkön við stjórn fiskveiða en í mörgum tilfellum, þegar kemur að þeim veiðum sem FarFish er að einbeita sér að, eru líkönin ekki til, gögnin sem þarf til að keyra þau ekki fyrir hendi, né þekking á því hvernig þau virka. Í þessum tilvikum munum við þróa einfaldari lausnir þar sem við á. Í þeim tilfellum sem lítið er til af gögnum er kannski óþarfi að vera með mjög stór og flókin líkön.“

Einnig er stefnt að því að gera virðiskeðjugreiningar á aflanum sem evrópski flotinn er að veiða. Jónas segir það geta orðið mjög fróðlegt að sjá hvað kemur út úr því.

Stór partur af FarFish-verkefninu snýst síðan um að miðla þekkingunni til útgerða og sjómanna og hjálpa þannig bæði heimamönnum og ESB við að þróa veiðarnar og stjórnun þeirra.

Við hliðina á Kínverjum
„Margar evrópskar útgerðir eru þegar þátttakendur í FarFish verkefninu, eða hafa sýnt fullan vilja til að taka þátt í því, en eitt helsta vandamálið sem kemur oft upp í samskiptum við útgerðirnar hefur verið að á þessum sömu slóðum eru aðrir stórir flotar að veiða í samkeppni við evrópska flotann. Til dæmis eru Rússar, Kínverjar, Taívanar og Kóreumenn líka að veiðum þarna, og þeir þurfa ekki að hlíta sömu skilyrðum og evrópski flotinn. Það stendur eðlilega svolítið í evrópska flotanum að vera að veiðum við hliðina á til dæmis Kínverjum og svo er ætlast til þess að þeir séu að fara eftir einhverjum öðrum reglum en hinir. Þetta er eiginlega farið að verða stóra vandamálið í þessu verkefni. Hættan er alltaf sú að menn falli niður á lægsta sameiginlega samnefnarann.“

Lausnin sem Jónas segist helst sjá fyrir sér á þessu vandamáli er að það takist að fá Evrópusambandið til að standa sig vel í þessum efnum og þá muni heimamenn kannski frekar semja við Evrópuflotann en Kínverjana um aðgang. Þetta geti verið hvatinn sem þarf, en allt er enn óvíst um það hvort sá hvati muni duga.

Falklandseyjar trufla
Veiðar Evrópuflotans fjarri evrópskum hafsvæðum eru stundaðar mjög víða. Því var ákveðið að takmarka verkefnið við sex hafsvæði, þar af fjögur sem eru innan lögsögu einstakra ríkja utan Evrópu og þar hefur ESB gert samninga við heimamenn um aðgang að miðunum.

Hin tvö eru á úthöfum utan lögsögu einstakra ríkja og þar er erfiðara um vik vegna þess að engir samningar hafa verið gerðir þar.

„Sennilega er erfiðasta hafsvæðið sem við munum skoða í suðvestur-Atlantshafi, þar sem fjölþjóðlegir fiskveiðiflotar stunda umfangsmiklar veiðar án þess að fyrir hendi sé nokkurskonar stjórnun eða eftirlit. Bara það að geta sest niður og haldið fund með Evrópuflotanum og Kínverjum og kannski Brasilíumönnum um þessar veiðar í suðvestur-Atlantshafi myndi teljast góður árangur,“ segir Jónas.

„Þar að auki er mikil politísk spenna í gangi þarna vegna Falklandseyja. Við vorum til dæmis með samstarfsaðila í Argentínu sem þurfti að draga sig út úr samstarfinu þegar að í ljós kom að Bretar væru með í verkefninu.“

Tungumálaerfiðleikar
Jónas segir þetta verkefni líka frábrugðið öðrum Evrópuverkefnum að því leyti að þátttakendur í fyrri verkefnum hafa flestir komið frá Evrópu. Allir tali góða ensku og ekkert mál sé að halda fundi.

„Hérna erum við komin í allt annan heim og bara til að halda fund þá þarf einhver að fljúga yfir hálfan hnöttinn. Svo eru það tungumálaerfiðleikarnir; sumir þátttakendurnir tala frönsku, spænsku eða portúgölsku og eiga erfitt með að tjá sig á ensku.“

Hann segir þarna koma sér vel að hafa Sjávarútvegsskólann með í verkefninu. Mary Frances tekur undir það. Hún hefur nú þegar farið til þriggja þeirra fjögurra landa sem unnið verður með í Afríku og á Indlandshafi.

„Við erum vön að fara til Afríku. Við höfum verið í sambandi við Grænhöfðaeyjar frá 1999, og þar eru margir af fyrrverandi nemendum okkar. Bæði Máritanía, Senegal og Seychelles eru hins vegar ný lönd fyrir okkur, en margt af því sem við erum að gera í þessu verkefni er eitthvað sem við vorum að gera áður hvort sem er.“

Óþægilegur Evrópufókus
Jónas segir að það reyndar hafi þurft að hafa smávegis fyrir því að sannfæra Sjávarútvegsskólann um að vera með í þessu verkefni.

„Þarna er náttúrlega Evrópusambandið að fjármagna rannsókn í þeim tilgangi að tryggja sínar veiðar. Við höfum samt alltaf reynt að hafa áhersluna á því að allir hagnist á verkefninu.“

Mary segir það óneitanlega hafa verið mjög sérstakt fyrir sig að lesa verkefnalýsinguna þegar ákveðið var að sækja um að fá að taka þátt í þessu verkefni.

„Orðalagið þar snerist nefnilega mikið um að efla matvælaöryggi og atvinnuhorfur og slíkt, en allt snerist það um Evrópusambandið. Venjulega er það þannig, þegar ég les um matvælaöryggi, að þá er alltaf átt við þróunarlöndin. En við hugsuðum sem svo að ef við gætum með þátttöku okkar hjálpað til við að bæta samskiptin milli þessara landa og ESB þá væri það af hinu góða, og að Afríkulöndin átti sig betur á þeim auðlindum í hafinu sem þau eiga.“

Leysum ekki öll vandamál

„Við vitum náttúrlega að við leysum ekki öll heimsins vandamál með einu svona verkefni,“ segir Jónas. „Við þurfum bara að vera raunsæ á það hvað við getum gert. Í draumaheimi væri það þannig að með svona verkefni gætum við sýnt fram á að Evrópuflotinn sé að gera hlutina eins og á að gera þá. Að takist að safna nægum gögnum til að geta á áreiðanlegan hátt sagt til um hversu mikið af afla sé óhætt að veiða og í framhaldi verði samningar við Evrópuflotann um aðgang að þessum afla í forgangi, þá fram yfir aðra sem kannski hafa ekki sýnt eins mikla ábyrgð og sjálfbærni. En hvort það gangi eftir er svo önnur saga.“