Nýsköpun í sjávarútvegi og eldi er afar mikilvæg enda ýtir hún undir framleiðniaukningu. Samkvæmt rannsóknum bendir allt til þess að fjárfesting í nýsköpun hafi jákvæð áhrif á samkeppnisforskot fyrirtækja. Því betur sem nýsköpun er sinnt innan fyrirtækja því meira verður samkeppnisforskotið. Þá skiptir máli hvernig nýsköpun er stjórnað innan fyrirtækja. Fjárfesting í þekkingu starfsfólks á nýsköpun er orðin óumflýjanleg ef fyrirtæki ætla að viðhalda samkeppnisforskoti.

Útflutningsverðmæti á hverju kílói af þorski hafa fjórfaldast frá árinu 1990

Tækniframfarir í fiskveiðum hafa leitt til mikillar verðmætasköpunar í sjávarútvegi. Rétt meðhöndlaður og kældur afli, sem unninn er í hátæknivinnslu, hefur leitt af sér minni sóun. Þannig hefur nýtingarhlutfall þorskflaks aukist um 20% á síðastliðnum tveim áratugum en flakið er 45-50% af heildarþyngd slægðs þorsks. Samstarf íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja, frumkvöðla og rannsóknarstofnana um nýsköpun og þróun á vörum úr hausum, beinum, innyflum og roði hafa skapað mikil verðmæti og stækkað kökuna. Frá árinu 1990 hafa útflutningsverðmæti á hverju kílói af þorski fjórfaldast og fjölbreytni sjávarafurða margfaldast. Nú á tímum nýtir bláa hagkerfið á Íslandi, sjávarútvegsfyrirtæki og nýsköpunarfyrirtæki allt að 90% af hverjum veiddum fiski.

Stuðningsgreinar treysta á sjávarútveginn

Fjölmörg dæmi eru um fjárfestingu í sjávarútvegi hér á landi og samhliða þeim hefur stuðningsatvinnugreinum vaxið fiskur um hrygg. Hefð er fyrir því að telja veiðar og vinnslu til sjávarútvegs, meðal annars í hagtölum, en það er of þröng skilgreining, réttara væri að telja hvers kyns þjónustu einnig til sjávarútvegs og eldis. Það þýðir að veiðarfæragerð, sem er venjulega talin til iðnaðar, telst til sjávarútvegs. Sama á við um sérhæfða viðgerðarþjónustu fyrir fiskiskip og fiskvinnslu, eins og til dæmis slipp, framleiðslu fiskvinnsluvéla eða markaðssetningu sjávarfangs og eldisafurða. Framleiðsla á alls kyns tækninýjungum, sem tengjast sjávarútvegi og eldi, er til dæmis nýting á fiskroði, vélbúnaður, sem er notaður í sjávarútvegi og eldi, og seiðaframleiðsla fyrir eldi.

Mörg stór fyrirtæki eru í sjávarútvegi og þjónusta grunnstarfsemina, eins og veiðina. Meðal þeirra er fyrirtækið Hampiðjan sem framleiðir veiðarfæri og búnað fyrir eldi og það er nú meðal stærstu veiðarfærafélaga í heimi. Önnur fyrirtæki sem vert er að minnast á í sjávarútvegi eru Ísfell og Tor-Net sem eru, eins og Hampiðjan, í framleiðslu veiðarfæra, Slippinn á Akureyri sem er þjónustuaðili við flest sem kemur að sjávarútvegi og fyrirtæki eins og Tempra og Icebox sem framleiða geymsluumbúðir fyrir fiskafurðir og Ístækni. Fyrirtækið Ístækni sem var stofnað 2023 meðal annars af fyrrverandi starfsmönnum 3xTechnology og voru öll tæki og búnaður Skagans 3X keypt. Ístækni starfar á Ísafirði og er með lausnir sem snúa að sjálfvirkni í karakerfum, kælingu, uppþíðingu, dælingu og flutningi á vörum fyrir vinnslur, ásamt lausnum fyrir millidekk í skipum. Micro er áhugavert fyrirtæki sem lítið ber á en hefur verið framsækið í lausnum fyrir millidekk í skipum og sérhæfðum lausnum fyrir landvinnslu. Þetta er langt fá því að vera tæmandi, hér er bara getið um örfá fyrirtæki.

Marel keypti Völku

Algengt er að tæknifyrirtæki séu keypt af öðrum fyrirtækjum til að ná fram meiri hagkvæmni í rekstri. Dæmi um slíkt eru kaup Marel á Völku, félagi sem það hafði áður unnið með. Valka var stofnað árið 2003. Segja má að það hafi í upphafi verið sannkallað bílskúrsfyrirtæki en það fæddist í bílskúr systur Helga Hjálmarssonar, framkvæmdastjóra Völku. Helgi, sem áður hafði starfað hjá Marel, vildi þróa vél sem gæti pakkað og skorið ferskan fisk með nákvæmari hætti en áður hafði verið hægt. Úr því varð sjálfvirk vatnsskurðarvél sem skar fiskinn hárnákvæmt með kraftmikilli vatnsbunu. Árið 2021 keypti Marel allt hlutafé í Völku.

JBT keypti Marel og Baader keypti Skagann 3X

Það er ekki óalgengt að framsækin, íslensk fyrirtæki, einkum á tækni- og hugbúnaðarsviði, séu keypt af erlendum stórfyrirtækjum. Stærsta fyrirtækið sem tengist slíku er Marel sem var stærsta fyrirtæki Íslendinga. JBT yfirtók Marel í lok árs 2024. Annað dæmi um þetta er þegar þýska fyrirtækið Baader keypti meirihluta í íslenska vélframleiðandanum Skaginn 3X árið 2020. Fyrirtækið var þó tekið til gjaldþrotaskipta sumarið 2024. Enn eitt dæmi er fyrirtækið Vélfag sem var stofnað árið 1995 á Ólafsfirði til að þjónusta sjávarútveginn. Fljótlega hófu starfsmenn Vélfags að þróa og framleiða vélar fyrir fiskvinnslu en í lok árs 2021 seldi félagið rússneska útgerðarfélaginu Norebo 54,5% hlut og er rússneska fyrirtækið því ráðandi hluthafi í félaginu. Þessi dæmi um kaup fyrirtækja milli landa sýna einfaldlega að fjármagn flýtur hindrunarlaust milli landa og sífellt er leitað að tækifærum til að stækka og nýta samlegðaráhrif. Fleiri dæmi um kaup útlendinga á fyrirtækjum úr sjávarútvegi og nýsköpun er til dæmis ísfirska líftæknifyrirtækið Kerecis sem var selt til erlendra fjárfesta á árinu 2023 fyrir 175 milljarða kr.

Kaup íslenskra aðila á erlendum fyrirtækjum

Þá eru einnig dæmi um kaup íslenskra félaga á erlendum félögum en fjárfestingarfélagið Kaldbakur á Akureyri gekk frá kaupum á öllu hlutafé í hátæknifyrirtækinu Optimar International í febrúar 2024 af þýska eignarhaldsfélaginu Haniel. Optimar er leiðandi á heimsvísu í þróun og framleiðslu á sjálfvirkum fiskvinnslukerfum til notkunar um borð í fiskiskipum, á landi og í fiskeldi. Fyrir utan höfuðstöðvar og framleiðsluaðstöðu á vesturströnd Noregs er Optimar með starfsstöðvar á Spáni, í Rúmeníu og Bandaríkjunum og með viðskiptavini í yfir 30 löndum. Hjá fyrirtækinu starfa 260 manns við hönnun og vöruþróun, framleiðslu, uppsetningu og sölu.

Íslendingar hafa einnig haslað sér völl í framleiðslu á umbúðum eins og fyrirtækið Sæplast ber vitni um en það hefur framleitt meðal annars fiskiker með góðum árangri. Sæplast var stofnað árið 1984 á Dalvík og er nú hluti af alþjóðlegu samsteypunni Promens. Frá árinu 2015 var Promens í eigu erlendra aðila, nú síðast bandarísku fyrirtækjasamsteypunnar Berry Global, en árið 2022 komst fyrirtækið aftur í eigu íslenskra fjárfesta.

Nýsköpun er lífæð sjávarútvegs

Það átta sig ekki allir á hversu mikilvæg nýsköpun er fyrir sjávarútveginn og þar með samfélagið. Íslendingar ættu ekki einn framsæknasta sjávarútvegi í heimi, nema vegna nýsköpunar og þróunar. Öll tækniþróun í fiskvinnslu hefur verið mjög þýðingarmikil og leitt til aukinna gæða, lækkunar á kostnaði og gert Íslendinga að stórveldi í mörgum greinum tengdum sjávarútvegi. Hér verða nefnd örfá dæmi um fyrirtæki sem hafa orðið til vegna samstarfs við sjávarútveginn. Nýsköpunarfyrirtækið Hefring þróar búnað sem ráðleggur skipstjórum hve hratt eigi að sigla miðað við aðstæður.

Ein af þeim tækninýjungum sem hefur rutt sér til rúms undanfarin ár er svokölluð þrívíddarprentun. Fyrirtækið N. Hansen á Akureyri er með slíkan búnað og notar tæknina meðal annars til að búa til varahluti, sem oft þarf að gera mjög fljótt og nákvæmlega og hentar þessi aðferð mjög vel til þess. Sífellt tæknivæddari sjávarútvegur og eldi krefst þess einmitt að viðhald og nauðsynlegar viðgerðir séu inntar af hendi mjög fljótt í heimi rafeindatækni.

Fyrirtækið Ankeri hefur þróað hugbúnað sem tvinnar saman hagsmuni eigenda og leigjenda skipa með bættri upplýsingagjöf, betri orkunýtingu og minni útblæstri skipaflotans. Þannig verður búinn til vettvangur, sem viðurkenndur er á alþjóðavísu, þar sem upplýsingum um hagkvæmni skipa er safnað saman og þær tengdar við frammistöðuábyrgðir í þeim samningum sem gilda milli eigenda og leigjenda skipa. Þannig leggur Ankeri sitt af mörkum í grænni þróun og orkuskiptum heimsflotans. Ankeri beinir aðallega sjónum sínum að flutningaskipum sem nú eru ríflega 6.000 talsins í heiminum.

Optitog var stofnað árið 2014 og hefur það þróað umhverfisvænan og byltingarkenndan búnað til veiða sem skemmir ekki hafsbotninn og dregur úr eldsneytisnotkun við veiðar. Fyrirtækið þróar tæki fyrir sjávarútveginn sem eru stýranlegir toghlerar með ljóstækni til smölunar á fiski. Optitog minnkar kostnað við veiðar sem og kolefnissporið og stuðlar því að umhverfisvænni fiskveiðum.

Sjálfvirknivæðing og snjallvinnsla

Tæknibreytingar og sjálfvirknivæðing felur það meðal annars í sér að framleiðslustörf eins og hefðbundin fiskvinnslustörf munu að stórum hluta breytast í störf sem snúa að því að stýra og þjónusta vélar og tæki. Þetta á við í sjávarútvegi og eldi eins og í öðrum greinum.

Snjallvinnsla í sjávarútvegi hefur leitt af sér nokkrar af fullkomnustu vinnslustöðvum fyrir botnfisk á heimsvísu. Sem dæmi má nefna vinnslu Samherja á Dalvík og vinnslu Brims í Reykjavík, en þar hefur vinnslubúnaður og hugbúnaður verið nýttur til fulls fyrir hvítfiskvinnslu. Vinnslukerfið var tekið i notkun árið 2020 og felur það í sér öflugt gæðaeftirlitskerfi og nýjustu róbótatækni sem mun sjálfvirknivæða og straumlínulaga vinnslu til muna. Í vinnslunni hefur snjallvinnsla í sjávarútvegi orðið að veruleika. Vinnslukerfið er með vatnsskurðarvélar og sjálfvirkri dreifingu afurða. Þar er háþróað pökkunarkerfi og beinaleitarkerfi. Hugbúnaður er í lykilhlutverki í nýja vinnslukerfinu þar sem hann tengir tækin á hverju vinnsluþrepi hvert við annað og tryggir jafnframt rekjanleika gegnum allt vinnsluferlið.

Þjálfun starfsfólks í sýndarveruleika

Nútímatækni felur það í sér að nú er hægt að sjá hvernig fiskvinnsla mun líta út áður en samið er við fyrirtæki sem bjóða slíkar lausnir. Í tölvuhermi er hægt að líkja eftir öllum stigum vinnslunnar. Þá fer þjálfun starfsfólks fram í sýndarveruleika, sem er nýjung á heimsvísu, og ætti starfsemin því að geta hafist strax að uppsetningu lokinni. Fyrirtæki þurfa því ekki að byrja á þjálfun eftir að búnaður er kominn inn í fiskvinnsluna. Fyrirtæki eru byrjuð að nýta sýndarveruleika í auknum mæli, við framleiðslu og sölu, og jafnframt til þess að hraða þróunarferlinu og draga úr kostnaði við uppsetningar fyrir viðskiptavini. Innleiðing þjarka, vélmenna eða róbóta í fiskiðnaðinn hefur verið mikil undanfarin ár, einhæf og erfið fiskvinnslustörf eru víða að hverfa og eftirlits- og tæknistörf taka við þar sem þjarkavæðing er hafin. Þjarkar eru mun nákvæmari heldur en mannshöndin. Þeir koma í veg fyrir mannleg mistök og auka því rekstraröryggið mikið.

Sjálfvirkni verður enn meira áberandi á næstu árum og fjölmörg núverandi störf munu glatast vegna hennar. Þetta er liður í þeirri atvinnuháttabyltingu sem nú stendur yfir en henni munu meðal annars fylgja erfðabreytingar, gervigreind og vélmenni.