Ísland fer með forystuhlutverk í nýju fjölþjóðaverkefni sem 7. rannsóknaráætlunin í Evrópu styrkir og er metið á 943 milljónir króna (6 milljónir evra).

Matís og Háskóli Íslands gegna forystuhlutverki í nýju umfangsmiklu fjölþjóðaverkefni sem 7. rannsóknaráætlun Evrópu hefur ákveðið að styrkja til fjögurra ára. Stuttheiti verkefnisins er MareFrame og ber enska titilinn: „Co-creating Ecosystem-based Fisheries Management Solutions“.

Styrkurinn hljóðar upp á 6 milljónir evra, en heildarkostnaður við verkefnið er 7.8 milljónir evra. Hlutur Íslands í verkefninu nemur um 275 milljónum íslenskra króna sem skiptast á milli Matís, Háskóla Íslands og Hafrannsóknastofnunar. Styrkurinn er meðal stærstu verkefnastyrkja sem veittir eru í Evrópu á þessu sviði.

Í MareFrame verkefninu verður þróað fjölstofna fiskveiðistjórnunarkerfi og fundnar leiðir til að auðvelda innleiðingu þess í Evrópu. Áhersla er lögð á vistvæna, sjálfbæra, félagslega og hagræna stjórnun. Einnig er lögð áhersla á samstarf við sjómenn, útgerðir og vinnslu ásamt öðrum hagsmunaaðilum sem koma að stjórnun fiskveiða.

Sjá nánar á vef Matís