Íslenskur sjávarútvegur var áberandi á sjávarútvegsráðstefnunni North Atlantic Seafood Forum sem fór fram í 14. skipti í Bergen í Noregi í síðustu viku. Á ráðstefnunni í ár er Ísland gestaþjóð og þar kynntu 21 íslenskt fyrirtæki sig sameiginlega undir yfirskriftinni „Inspired by Iceland”. Íslenska sendinefndin er sú fjölmennasta sem hefur verið frá upphafi ráðstefnunnar.

Á ráðstefnunni var haldin sérstök málstofa með erindum frá íslenskum fyrirtækjum undir yfirskriftinni „sjálfbærni, gæði og nýsköpun.“ Málstofan vakti athygli og mikill áhugi var greinilegur frá erlendum blaðamönnum sem vildu kynnast því sem Íslendingar eru að gera í sjávarútveginum í dag.

Áberandi fyrirlesarar

Íslenskir fyrirlesarar voru einnig áberandi í aðaldagskrá ráðstefnunnar sem er ein sú stærsta sinnar tegundar í heiminum og tæplega þúsund manns sækja árlega. Eftir ávarp Ernu Solberg forsætisráðherra Noregs héldu bæði Heiðrún Lind Marteinsdóttir framkvæmdastjóri SFS og Guðmundur Kristjánsson forstjóri HB Granda erindi sem svo sannarlega vöktu slógu í gegn á stóra sviðinu í Bergen. Þá var Árni M. Mathiesen, framkvæmdastjóri hjá Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) í Róm, einnig með fyrirlestur.

Í lok aðaldagskrár ráðstefnunnar kynntu þau Stella Björg Kristinsdóttir og Kristján Þ. Davíðsson, sem eiga bæði sæti í stýrihópi vegna þátttöku Íslands, nýtt kynningarmynd. Það ber yfirskriftina „Inspired by Iceland” og sýnir forystuhlutverk Íslands í alþjóðlegum sjávarútvegi, þar sem tækni og nýsköpun eru aðal drifkrafturinn.

Iðnbyltingin

Ekki verður haldin sjávarútvegsráðstefna þessi misserin án þess að fjórða iðnbyltingin svokallaða sé sérstaklega til umfjöllunar.

Huginn Freyr Þorsteinsson, sérfræðingur hjá Aton, hefur að öðrum ólöstuðum fjallað ítarlega um hvað í þessu felst, og svo var líka í sérstakri málstofu um fjórðu iðnbyltinguna og sjávarútveg í Bergen.

„Í erindi mínu fjallaði ég um fjórðu iðnbyltinguna og af hverju í henni felast tækifæri fyrir sjávarútveg en einnig fyrir matvælaframleiðslu á Norðurlöndum. Miklar breytingar hafa átt sér stað í sjávarútvegi á Íslandi á síðustu árum og aukin tæknivæðing í honum hefði skilað miklum ábata fyrir íslenskt samfélag,“ segir Huginn í skriflegu svari til Fiskifrétta.

Hann fjallaði einnig um að tækniþróun í sjávarútvegi á 20. öld hefði þýtt stóraukna möguleika í að sækja á fjarlægari mið við Ísland og ná í meiri afla. Með tækniþróun fjórðu iðnbyltingarinnar fælust möguleikar í frekari fullvinnslu afurða, meiri gæðum og jákvæðra umhverfisáhrifa t.d. með betri nýtingu afurða. Þá ættu matvælaframleiðendur á Norðurlöndum að nýta sér þekkingu úr hinum geirum matvælaframleiðslu til þess að þróa tækni áfram.

„Tæknilegar lausnir á vandamálum við nýtingu sjávarfangs ætti að geta skilað sér í aðrar greinar eins og kjúklingaframleiðslu og öfugt. Styrkleikar Norðurlandanna fælust í að vera með mikla nýsköpun í atvinnulífi og sterka tæknilega innviði sem þýddi að þau hefði ákveðið forskot á aðrar þjóðir þegar kemur að ná fótfestu í þeim tæknilegum breytingum sem framundan eru. Samstarf þeirra í milli gæti skilað sér í ávinningi,“ segir Huginn.

Fjölsótt frá Íslandi

Fyrirtækin sem kynntu starfsemi sína á ráðstefnunni voru Arion-banki, Arnarlax, Curio, D-Tech, Hábrún, HB Grandi, Iceland Responsible Fisheries, Íslandsstofa, Marel, Matís, MSC á Ísland, Pólar-toghlerar, Samskip, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Skaginn 3X, Sæplast, Trackwell, Vaki, Valka, Viðskiptaþróun og Vísir í Grindavík.