„Ísland kemst varla á blað þegar rætt er á almennum nótum um helstu viðskiptalönd Bretlands en þegar að sjávarafurðum kemur slær enginn okkur við,“ sagði Gunnar Snorri Gunnarsson sendiherra í erindi á Sjávarútvegsráðstefnunni á dögunum, þar sem hann fjallaði um afleiðingar Brexit á viðskipti með sjávarafurðir.

Að sögn Gunnars hefur Ísland samið um vildarkjör fyrir flestar sjávarafurðir á Evrópumarkaði með fríverslunarsamningi frá 1972, með EES samningnum og einnig koma til tollkvótar á ýmsar afurðir. Eftir að úrsögn Breta hefur tekið gildi, sem gæti orðið um mánaðamótin mars-apríl 2019, falla niður öll vildarkjör í viðskiptum Bretlands og Íslands, sem samið hefur verið um við ESB, nema við höfum náð samkomulagi um annað við Bretland.

Gunnar sagðist ekki vilja mála skrattann á vegginn en benti á að góður vilji dugi ekki til, það þyrfti samninga og reynslan sýndi að tíma tæki að ganga frá þeim. „Bretar þurfa ekki aðeins að semja við sína gömlu félaga innan ESB heldur einnig við viðskiptavini um allan heim. Í þessu samhengi eru tvö ár stuttur tími og alls óvíst hvað tekst að semja um innan þessa frests,“ sagði Gunnar Gunnarsson.  Hann bætti því við að málið snerist ekki eingöngu um tolla heldur einnig aðrar mögulegar viðskiptahindranir eins og heilbrigðis- og gæðaeftirlit, lendingarréttindi flugvéla með ferskfisk og fleira.

Sjá nánar í Fiskifréttum sem komu út í dag.