Ís hefur verið til vandræða við í Skagerak síðasta mánuðinn því hann hefur komið í veg fyrir það að sjómenn geti róið. Þetta þykja ekki vera góðar fréttir nema ef vera skyldi fyrir þorskinn.

Þorskurinn fær nú loksins tækifæri til að hrygna í friði, að sögn fiskifræðings hjá útibúi norsku hafrannsóknastofnunarinnar í Flødevigen í Suður-Noregi.

Hann segir að nú sé þorskurinn laus við netin á hrygningarslóðinni. Þar fyrir utan komist hvorki selir né skarfar til að gæða sér á þorskinum vegna íssins.

Þorskur hefur þegar gengið til hrygningar í Skagerak og ef ísinn verður viðloðandi fram í mars fær þorskurinn algjöran frið við hrygninguna.

Fiskifræðingurinn segir að sjá megi árangurinn strax í haust og ef vel takist til gæti veiðin aukist eftir tvö til þrjú ár.