Til að styrkja stöðu Ísfells á flottrollsmarkaðinum hér á landi og á Grænlandi hefur fyrirtækið samið við Fishering Service í Kaliningrad um framleiðslu á flottrollum og pokum fyrir uppsjávarveiðar, að því er segir í frétt frá Ísfelli.

Fishering Service er eitt fremsta fyrirtæki í heiminum í dag í framleiðslu á flottrollum og pokum. Fyrirtækið var stofnað af Andrey Fedorov árið 1993 en hann starfaði áður sem trollmeistari á togurum og hefur mikla reynslu af öllu sem kemur að veiðum og veiðarfærum. Frá stofnun hefur Fishering Service framleitt yfir 5.000 flottroll og poka af öllum stærðum. Samkvæmt Dmitriy Fedorov sölustjóra Fishering Service liggja þeir með góðan lager af vörum sem þeir nota í trollin. „Við getum framleitt meðalstærð af flottrolli á um tveimur vikum og flutningur til Íslands getur svo tekið tekið 7-14 daga,“ segir Dmitriy.

Hjá Fishering Service vinna um 150 manns og að hluta til er unnið á tveimur vöktum. Fishering Service framleiddi um 250 flottroll og poka á síðasta ári sem þeir seldu víða um heim, og má því segja að það séu flottroll frá Fishering Service á öllum helstu fiskveiðisvæðum í heiminum.  Samningurinn felur í sér að Ísfell sér um sölu og viðhald á trollum frá Fishering Service á Íslandi og Grænlandi jafnframt munu félögin hafa með sér samstarf um þróun á veiðarfærum. „Fishering Service framleiðir nánast allar gerði flottrolla, fyrir allar veiðar, svo sem, þorsk, ufsa, karfa, makríl, sardínu, sardinellu, hake, hoki, síld, loðnu og krill, svo eitthvað sé nefnt. Trollin eru svo með ýmsum útfærslum úr tígul- eða sexkantsmöskva, allt eftir því hvað á að veiða hverju sinni,“ segir Dmitriy.