Ísframleiðandinn Frederick´s í Lancaskíri í Bretlandi hefur sett á markað ís sem bragðast eins og fiskur og franskar eða fish and chip´s.

Ísinn með nýja bragðinu, sem líkist rjómahjúpuðum þorski, var kynntur nýlega á fiski- og frönskustað í Vestur London sem kallast George´s Portobello Fish Bar og er sagður vera einn af uppáhalds stöðum sjónvarpskokksins Jamie Oliver.

Markaðsstjóri Frederick´s Dairies segir að Bretar séu sólgnir í ís og að fiskur og franskar séu vinsæl fæða. Þrátt fyrir að samsetningin hljómi sérkennilega vonast framleiðendur íssins til að hann njóti vinsælda en árleg velta ísmarkaðarins í Bretlandi er talin nema um 1,3 milljörðum punda á ári.

Áður hefur verið settur á markað í Bretlandi ís sem bragðast eins og rækjukokteill, soðið bjúga og síðast en ekki síst beikon og egg sem fengið hafa blendnar viðtökur.