Írska stjórnin hefur ákveðið að veita útgerðum styrki til þess að fækka írskum fiskiskipum um þriðjung. Alls verður 80 milljónum evra, eða ríflega 11 milljörðum króna, greiddir úr ríkissjóði í þessu skyni.

Charlie McConalogue, ráðherra landbúnaðar, matvæla og sjávarútvegs, segir þetta nauðsynlegt til að „koma aftur á jafnvægi milli getu fiskiskipaflotans og þeirra veiðiheimilda sem til eru, eftir að dregið var úr veiðiheimildum vegna viðskipta- og samvinnusamkomulags Evrópusambandsins og Bretlands.“

Eftir að Bretar gengu úr Evrópusambandinu er breskt hafsvæði utan sameiginlegrar sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins, með þeim afleiðingum að kvótahlutföll breyttust.

Sextíu togarar

Frá þessu segir meðal annars á fréttavefnum SeafoodSource. Þar er einnig haft eftir Aodh O‘Donnell, framkvæmdastjóra IFPO, samtaka írskra útgerðarfélaga, að líklega þýði þetta að hætta þurfi útgerð um 60 írskra togara. Verið sé að þröngva útgerðum úr rekstri vegna of lítilla og ósanngjarnra veiðiheimilda, auk þess sem hár eldsneytiskostnaður spili þar inn í.

Áætlun stjórnvalda snýst um að bjóða eigendum skipa allt að 12 þúsund evrur fyrir að leggja skipi og áhöfnin fái einnig allt að 50 þúsund evrur á mann, hafi þeir starfað í greininni í 40 ár. Miðað er við skipastærð allt að 8.000 tonn og 21.000 kílóvött.

Enginn verður þó skyldaður til þess að ganga að þessu, en stjórnvöld vonast til þess að fjárhagslegi hvatinn dugi. Skipaeigendur eigi að fá góðan tíma til að hugsa málið áður en ákvörðun er tekin.

Skiptar skoðanir

McConalogue ráðherra segir að þessar aðgerðir muni stuðla að því að stærð fiskiskipaflotans, sem bæði sjávarútvegsgeirinn allur og írsku strandbyggðirnar reiða sig á, verði raunhæf til lengri tíma.

O‘Donnell segir að Írar ráði yfir besta og gjöfulasta hafsvæði allra Evrópulanda en aðrir hafi fengið að arðræna það. Afleiðingin hafi orðið sú að framleiðsla fiskafurða á Írlandi sé orðin minni en annarra Evrópusambandslanda á borð við Holland og Belgíu, sem ráði yfir miklu styttri strandlengju en Írar.

„Á síðustu átta árum hefur írskur sjávarútvegur fallið úr þriðja sæti niður í tíunda sæti í Evrópu,“ hvað varðar verðmæti framleiðninnar, sagði O‘Donnell í svari við spurningum frá SeafoodSource. „Við erum sífellt að bíða lægri hlut gagnvart öðrum Evrópusambandslöndum.“